150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[17:48]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir afar greinargott svar. Mig langar aðeins að venda kvæði mínu í kross og fara í annan hluta ræðu hennar frá því áðan, þ.e. upphæðirnar. Hv. þingmaður talaði töluvert um hvað við erum í raun og veru að setja litla fjármuni í þessi mikilvægu mál. Telur hv. þingmaður að ekki sé tækifæri til að auka upphæðirnar? Í því samhengi langar mig að minnast á hvað það var rosalega djörf ákvörðun á sínum tíma að fara í hitaveituvæðingu, að leggja t.d. hitaveitu hér í borginni. Eins og ég þekki til var þetta stórpólitískt mál á Akureyri af því að startkostnaðurinn var gríðarlegur við að koma hitaveitu í öll hús þar. Sem betur fer var framsýnt fólk í bæjarstjórn á þeim tíma sem þorði að taka þessa ákvörðun og gerði gríðarlega mikið, eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan, fyrir þessa bæi og þessi þorp sem hafa aðgengi að hitaveitu. En það þýddi að í upphafi þurfti að sökkva töluvert stórum upphæðum í verkefnið. Er það ekki akkúrat það sem við þurfum að gera núna í tengslum við orkuskiptin og átök okkar við loftslagsvá og hamfarahlýnun? Þurfum við ekki einmitt að þora að taka djarfar ákvarðanir þótt það þýði að stundum þurfum við að setja í hlutina upphæðir sem hljóma háar? En eins og við hv. þm. Smári McCarthy ræddum áðan skilar það sér samt að lokum.