150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[17:50]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, það þarf heldur betur hugrekki og þor og stóra fjárfestingu til að takast á við það gríðarstóra verkefni sem blasir við okkur. Ég myndi segja að ef auka á við fjármunina í þennan sjóð sé enn mikilvægara að faglega sé skipað í hann. Eftir því sem milljónirnar eru orðnar fleiri, fleiri tugir, fleiri hundruð milljóna, skapast auðvitað sá freistnivandi að fara ekki nógu vel með það fé.

Hv. þingmaður talaði um að það hafi einmitt verið stórhugur og ákveðinn kraftur í því að ákveða að hitaveituvæða. Núna erum við t.d. að horfa fram á að vetni gæti verið mjög stór lausn framtíðarinnar. En við viljum þá sjá og við þurfum einhvern sem sér að við stefnum þangað núna og það sé þess virði að verja nokkrum milljörðum í startkostnað til að ná fram orkuskiptum, til að ná fram betri orkunýtingu. Til þess þurfum við fólk sem er vel inni í málaflokknum og hefur einhverja framsýni og hefur verið að rannsaka, hefur ástríðu fyrir þessum málum og er vel að sér. Af því að hv. þingmaður minntist á ráðgjafarráð, að það sé bara nokkuð vel skipað, held ég að það sé líka svolítið í eðli sínu erfitt að skipa aðila í ráðgjafarráð sem geta ekki ráðlagt ráðherra nokkurn skapaðan hlut. Mér finnst það aðeins öðruvísi þegar við erum komin með einhverja stjórn. Þar liggur ekkert fyrir, það er ekki einu sinni í heitinu að þau þurfi að hafa einhverja þekkingu á málaflokknum. Það finnst mér athugavert. Þess vegna vil ég sjá fólk með faglega þekkingu, menntun og reynslu og færni stýra þessu verkefni, fólk sem veitir því einhvers konar faglegt aðhald hvernig verður farið með fjármunina gagnvart þessum markmiðum, til þess einmitt að geta verið stórhuga, (Forseti hringir.) til þess einmitt að geta verið framsýn. Það þarf að vita hvert er stefnt til að geta farið áfram veginn.