150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[19:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nokkur atriði um þennan blessaða Orkusjóð. Eins og hefur verið talað um hérna og hv. þm. Jón Þór Ólafsson hefur minnt nokkrum sinnum á er áhugavert samhengi hvað varðar þennan sjóð og aðra tiltölulega sambærilega sjóði, svo sem Matvælasjóð og loftslagssjóð, þar sem mismunandi kröfur eru gerðar til þeirra sem eru í stjórn sjóðanna. Það er mjög merkilegt þegar maður hugsar til þess að hjá okkur er ákveðið tvístrað kerfi sjóða. Það er ekki samnýting ákveðinnar fagþekkingar að því er maður fær séð. Skipulag sjóða og stjórna og nefnda á vegum hins opinbera er ekki undir einhverju einu skapalóni löggjafar sem er hægt að grípa til ef það á að vera stjórn yfir einhverju apparati. Hitt er síðan að þetta er þriggja manna stjórn sem gæti nýtt sér mjög mikla þekkingu annars staðar í stjórnsýslunni, vonandi og væntanlega er einhver samtvinnun þar. En þar sem þessi sjóður á að vinna út frá nýsköpunarstefnu, orkustefnu, byggðastefnu o.s.frv., þá myndi maður ætla að einhvers konar stjórnsýsla á bak við væri mjög heppileg, ekki endilega bara Orkustofnun. Það hljóta að vera mun fleiri tengingar þarna á milli.

Hér er verið að stofna sjóð með sérstaka áherslu á mismunandi atriði, eins og hefur verið farið hérna yfir varðandi hlutverk Orkusjóðs. Það er hagkvæm nýting orkuauðlinda landsins, að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, styðja verkefni sem stuðla að orkuöryggi, samkeppnishæfni á sviði orkumála og orkutengd verkefni á grundvelli orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum. Þetta er gríðarlega yfirgripsmikið. Maður sér ekki fyrir sér að þrír einstaklingar nái utan um þetta allt á þann hátt sem myndi ná þeim markmiðum og þeim gæðastöðlum sem við vildum helst ná. Ef þau geta það þá er það algjörlega frábært, en ef við ætlum að gera þetta vel þá er þetta ansi stórt verkefni fyrir ekki svo marga einstaklinga. Kannski færi betur á því ef sjóðurinn væri einmitt hluti af stærra apparati þar sem er sérþekking á útdeilingu styrkja. Það er ýmiss konar þekking til í stjórnsýslunni sem gæti rennt stoðum undir sambærileg verkefni í staðinn fyrir að hafa þetta svona tvístrað eins og þetta kerfi virðist dálítið vera, tvístrað sjóðakerfi. Vissulega er gott að hafa ákveðna fagþekkingu á ákveðnum atriðum innan slíks apparats, en það er ekki gerð krafa um fagþekkingu, eins og hv. þm. Jón Þór Ólafsson hefur bent á. Kannski ekki núna, það hefur verið farið yfir það í umræðunni og hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir benti einmitt á það að núverandi stjórn virðist vera mjög vel skipuð en það kemur alltaf ráðherra eftir þennan. Eftir fjögur ár eða þegar næsti skipunartími hefst þá getur eitthvað gerst.

Við erum með ráðherra hérna okkur á hægri hönd, sem er að vísu ekki hérna og hefur ekki sést að undanförnu, sem fór með skipun formanns fjölmiðlanefndar og skipun ráðuneytisstjóra sem orkaði að einhverju leyti tvímælis. Við erum með ráðherra hér á vinstri hönd sem lagðist gegn skipun fræðimanns í ritstjórastöðu. Það er alltaf svona atriði sem koma upp af og til, sérstaklega þegar ekki er lögð áhersla á grundvöll fyrir faglegri vinnu. Og í þeim tilvikum þar sem um faglegt mat er að ræða, þá getur fólk sem er sniðgengið leitað réttar síns. Það skiptir mjög miklu máli í þessum aðstæðum. Þegar ríkisstjórnin útdeilir stólum til vildarvina er afleiðingin af því fyrir samfélagið í heild sinni verra samfélag af því að þá höfum við ekki hæfasta fólkið í þessum stöðum til þess að vernda réttindi okkar, t.d. einhvern við dómstólana eins og við könnumst við varðandi landsrétt, eða þegar útdeilt er styrkjum til þessara gríðarlega mikilvægu verkefna af því að framtíðarsýnin er kannski ekki alveg sú sama og væri ef við fengjum hæfustu manneskjuna sem við gætum fengið í þetta verkefni.

Það er annað sem ég vek athygli á varðandi þetta frumvarp, en í því er fjallað um að það hafi ekki áhrif á fjárhag ríkisins. Nú hef ég gert athugasemdir við nokkur svona mál þar sem ekki er lagt mat á kostnað eða áhrif á ríkissjóð. Hér er lagt mat á það en sagt að frumvarpið hafi ekki áhrif á fjárhag ríkisins. Ég myndi vilja gera smá athugasemd hvað það varðar. Ég ætla ekki gera of alvarlega athugasemd við þetta því að tæknilega séð hefur þetta líklega ekki mikil áhrif á upphæðirnar sem þarna koma við sögu, en þarna er verið að vinna að verkefnum, nýsköpunarverkefnum. Í tilviki ýmissa nýsköpunarsjóða á vegum hins opinbera höfum við ákveðna þekkta arðsemi í útdeilingu styrkja til verkefna meðal þeirra. Það eru t.d. gefnar út skýrslur hjá Tækniþróunarsjóði þar sem er farið yfir áætlaðan ábata af þeim verkefnum sem þar hafa verið fjármögnuð. Slíkur meðalábati ætti í rauninni að vera tekinn með í frumvarpi á borð við þetta þar sem hér er verið að setja á stofn nýsköpunarsjóð að vissu leyti. Hlutverk hans er m.a. að styðja verkefni sem stuðla að orkuöryggi og samkeppnishæfni o.s.frv., þetta er ákveðin orkunýsköpun. Það á að leiða til ábata fyrir ríkissjóð. Af þeim ástæðum myndi maður vilja sjá í mati á áhrifum á fjárhag ríkisins að málið sé sagt hafa jákvæð áhrif á fjárhag ríkisins. Það er hægt að miða við einhvers konar sviðsmyndagreiningar sem að grunni til sjást hjá sambærilegum sjóðum, t.d. Tækniþróunarsjóði eða eitthvað svoleiðis. Þessar fjárheimildir koma til með að auka tækifæri okkar í framtíðinni. Þess háttar nýsköpunarverkefni sem hafa farið í gegnum slíka hraðla hjá okkur eru verkefni sem hafa virkilega stækkað hina svokölluðu köku. Hún er lygi, ég held engu öðru fram, þetta er miklu flóknara mál, en til að einfalda þetta þá eru þetta í klassískum skilningi mál sem stækka kökuna. Þau búa til eitthvað nýtt, þau hugsa til framtíðar og byggja upp til framtíðar.

Það eru ansi stór verkefni fram undan. Ég hef talið upp nokkur atriði sem fara að gerast á næstu árum sem eru gríðarlega spennandi. Í fyrsta lagi er það á sviði landbúnaðar, mál eins og kjötrækt, leðurrækt líka og nýsköpun í ræktun á grænmeti. Þetta á eftir að gerbylta landbúnaðinum eins og hann er núna og mun gera að verkum að við þurfum ekki að sigla út á sjó og veiða fisk. Við getum það ef við viljum en við þurfum þess ekki. Fjöldaframleiðsla á dýrum leggst í rauninni af, hún verður algerlega óþörf. Sjálfbærnibúskapur mun verða miklu verðmætari en hann hefur verið, sem mun verða mjög gott fyrir Ísland. Þetta er ein af hinum nálægu byltingum sem við sjáum fyrir. Önnur bylting varðar orku og sérstaklega orkugeymslu og orkusköpun. Núverandi samkeppnisforskot okkar með vatnsaflsvirkjanir og þess háttar kemur til með að hverfa tiltölulega hratt á næstu árum. Sjálfbær og umhverfisvæn orkuframleiðsla er í svo hraðri þróun kostnaðarlega séð að mörg önnur lönd, vonandi öll önnur lönd, koma til með að geta framleitt orku á álíka ódýran hátt, ef ekki ódýrari, og við gerum hérna með okkar vatnsaflsvirkjanir. Það mun hafa gríðarleg áhrif á iðnað í landinu, virkilega mikil áhrif. En það er samt ekki slæm framtíð. Það er mjög góð framtíð, þó ekki sé nema umhverfislega séð en líka varðandi þau tækifæri sem við getum nýtt okkur, t.d. í sjálfbærni. Kostnaðurinn við innflutning á olíuvörum og öðrum vörum, á orku í rauninni, á að vera alger óþarfi hérna á Íslandi.

Og þetta varðar einmitt frumvarp um Orkusjóð gríðarlega mikið. Við ættum að ná sem fyrst sjálfbærni hvað varðar orku á Íslandi. Það er forgangsatriði. Ábatinn af því að ná þeirri tækni, sem nær jafnvel til útflutnings og arðsemi fyrir land og þjóð, er líka sparnaður varðandi innflutning og loftslagsmarkmið og skuldbindingar okkar á því sviði og þar fram eftir götunum. Ef það eru einhver skilaboð til Orkusjóðs sem koma út úr þessu er það að horfa til framtíðar um sjálfbærni og ganga í nýsköpunarverkefni sem ná þeirri framtíð sem fyrst. Það er algjört lykilatriði ef við ætlum að standa við skuldbindingar okkar. Það er algjört lykilatriði til að ná þeirri framtíð fyrir heiminn að sem flest nærsamfélög séu sjálfbær með orku. Ef við erum komin með sjálfbæran orkuiðnað, hvar sem er í heiminum, samhliða þróun í matvælaframleiðslu, þar sem við erum t.d. með kjötrækt, þar sem notuð er sjálfbær orka, ekki með brennslu eða gríðarlega stórum orkuflutningsmannvirkjum, mun þetta tvennt gera heiminn miklu friðsælli, það er einfaldlega svo. Þetta er friðartæki. Þriðja byltingin varðar síðan framleiðslu, sem fjórða iðnbyltingin kemur dálítið inn á. Það er þrívíddarprentun, stafrænu smiðjurnar sem við höfum fjallað um hérna á þinginu og fleira.

Í þessu þrennu liggur framtíðin, náin framtíð, í algjörum lykilatriðum, að við raungerum þá möguleika sem tækni eins og stafrænar smiðjur fela í sér, tækni sem gerir okkur sjálfbær hvað varðar orkuþörf og svo tækni í matvælaframleiðslu sem er drifin áfram af bæði framleiðslunni, framleiðslutækninni og orkusköpun. Það mun búa til svo miklu betri heim að við verðum að komast þangað eins fljótt og við getum.