150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[19:50]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að leyfa mér að vera nokkuð sammála hv. þingmanni um þetta. Það ætti a.m.k. að vera hægt að segja að afleiðingarnar verði jákvæðar eða neikvæðar þó að ekki séu gefnar upp tölur upp á krónur eða aura. Það væri líka hægt að segja að mögulega sé einhver kostnaður í upphafi fyrir ríkið. Það skili sér hins vegar í auknum tekjum einhvers staðar eða minni kostnaði annars staðar, eins og hæstv. forseti ræddi t.d. í andsvörum áðan í tengslum við hitaveituna og ábatann sem orðið getur af því að finna heitt vatn. Það hlýtur að skoðast sem jákvæð afleiðing. En sú jákvæða afleiðing skilar sér samt kannski ekki á næstu árum. Það tekur hana einhver ár að skila sér til baka í ríkissjóð. En það breytir því ekki að það verða jákvæðar afleiðingar og ekki bara í krónum og aurum.

Það er reyndar eitt af því sem ég hef svolítið verið að tala um í þinginu, að við þurfum líka að horfa á jákvæðu, samfélagslegu afleiðingarnar, sérstaklega í málum sem snerta byggðir landsins á ólíkan hátt. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvað finnst honum um að líka væri litið á jákvæðar afleiðingar hér, byggðagleraugun sett upp og áhrif frumvarpa metin út frá þeim? Það er kannski ekki hægt. Ég held að í þessu tilfelli sé samfélagslegur ábati af því t.d. að finna heitt vatn mikill, ekki síður en í krónum.