150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[19:59]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þetta er býsna áhugavert mál sem við ræðum hér, ekki bara út af innihaldinu, sem vissulega hefur verið komið vel inn á og ég mun nú svo sem gera að aðalatriði mínu hér, heldur líka vegna þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram í vinnslu nefndarinnar. Ég sit ekki í þeirri nefnd sem hefur haft þetta mál til umfjöllunar en er í öðrum nefndum þar sem við höfum verið að kljást við sömu atriði, þ.e. við höfum verið að vinna mál þar sem ítarleg gagnrýni hefur komið fram á ákveðin efnisatriði sem hafa ekki fengið nægilega góða umfjöllun. Mál hafa því verið kláruð með þeim hætti oftar en ekki — ókei, ég ætla nú að bakka með það, það er kannski ekki alveg oftar en ekki — en það er of oft sem gott mál fer í þann farveg að menn ætla að geti verið góð sátt um með einhverjum litlum tilhliðrunum og breytingum, en lenda í ógöngum af því að það er eitthvað eitt eða tvennt sem næst ekki. Það virðist frekar hlaupa einhver þrjóska í hópinn en að menn séu ósáttir við einhver efnisatriði í breytingartillögum. Ég hef ekki enn þá fengið t.d. nákvæmlega úr því skorið af hverju ekki var hægt að koma til móts við hugmyndir um að endurskoða hvernig skipað væri í stjórn þessa sjóðs, svo að hægt hefði verið að koma til móts við þau sjónarmið sem hafa ekki eingöngu verið reifuð hér úr ræðustól heldur koma mjög skýrt fram í ákveðnum umsögnum. Ég nefni umsögn Valorku sem dæmi. Þetta langaði mig að nefna. Stundum finnst mér við einhvern veginn grafa okkar eigin pytti sjálf, svo ég segi það nú bara eins og það er.

Þær breytingar á Orkusjóði, sem stefnt er að með frumvarpinu, eru bæði góðar og tímabærar að mörgu leyti. Ég sé ástæðu til að taka sérstaklega undir það hlutverk sjóðsins sem er tilgreint, „að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkuauðlinda landsins með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða er miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka nýtingu á innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum“. Það er mjög gott að sjá áhuga stjórnvalda, og ekki seinna vænna, á að auka svigrúm sjóðsins og skýra betur hlutverk hans. Þess heldur hefðum við viljað sjá t.d. áskilnað um það að annaðhvort í stjórn sjóðsins eða að einhverju öðru leyti, kæmu að ákvarðanatöku aðilar sem væru sérstaklega til þess bærir að koma með „input“ — afsakið slettuna, herra forseti. Það fólk kæmi með innlegg í gegnum nýsköpunarhugsunina, hvort sem það er í háskólasamfélaginu eða er virkilega okkar fremsta fólk í nýsköpun á þessu sviði vegna þess að við eigum fólk þar. Ég hefði haldið að það væri mjög mikilvægt þegar verið er að stíga þetta góða skref að við nýttum tækifærið og ýttum undir tækifæri fólks, sem er að mennta sig í þessum geira, til að eiga hér aðkomu, ekki að leggja stein í götu þess að það komist inn, heldur beinlínis tryggja að það sé ekki síst þetta fólk sem hafi aðgengi að ákvarðanatöku og öðru.

Síðan langar mig aðeins að fjalla um aðgengi almennings að upplýsingum um fjárveitingar sjóðsins. Þau sjónarmið eru viðruð í umsögn frá Samtökum iðnaðarins að mikilvægt sé að auka gagnsæi í stjórnsýslunni og kveða á um það í lögum um sjóðinn að hann birti árlega skýrslu um starfsemina og úthlutun styrkja til verkefna. Vísað er til Enova í Noregi, sem á ríka samsvörun við starfsemi Orkusjóðs, og er öllu reynslumeiri, líkt og norska þjóðin öll er þegar kemur að þessum málum borið saman við okkur. Vísað er í umsögn Samtaka iðnaðarins í frumvarpinu en ekki er talin ástæða til að bregðast við á annan hátt en svo að vera með ansi ríka reglugerðarheimild til ráðherra um skilyrði fyrir framlögum úr Orkusjóði, um undirbúning úthlutunar o.s.frv. Síðan er ráðherra áfram heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi og skipulag sjóðsins og framkvæmd laganna.

Þetta er gott og blessað þegar við erum heppin með ráðherra, öllu verra þegar við erum það ekki. Þetta er bara óþarfi þegar farið er af stað með svona nýja lagasetningu með markmið sem við erum öll, held ég, nokkuð sammála um, okkur er í lófa lagið að tryggja betur í lögunum að gegnsæi ríki og farið sé eftir ákveðnum leikreglum sem við komum okkur öll saman um. Þetta frumvarp er ekki mikil lesning, það er ekki mikið flækjustig í því. Það er oft mikið flækjustig, flókin lög, mikill texti sem gerir að verkum að það er einfaldara að færa sumt yfir í reglugerðarheimild til ráðherra, eða ef miklar breytingar eru fyrirsjáanlegar, kvikur markaður sem lögunum er ætlað að ná til, en það á ekki við hérna. Það er óþarfi að hafa þessa reglugerðarheimild þetta mikið opna. Ég hefði því viljað sjá þetta aðeins öðruvísi.

Það hefur verið fjalla mikið um skipan stjórnar sjóðsins og ég kem svo sem aðeins inn á það líka. Það er kannski enn annað, mig vantar ástæðuna fyrir því að ekki var brugðist við þeim umsögnum sem kváðu á um að fara hefði átt öðruvísi að málum. Það er ekkert að því, og ég er sannarlega undir þá sök seld líka, að taka ekki undir allar umsagnir sem koma, gjarnan eiga þær til að rekast hver á annarrar horn. En mér finnst vera lágmark að það sé rökstutt ef svo er ekki, sérstaklega þegar fleiri en ein umsögn og fleiri en tvær eru í sömu átt. Við getum vísað í dæmi um samsvarandi sjóði þar sem farin er þessi leið og hún er rökstudd mjög vel. Mig vantar skýringu á því af hverju það er ekki gert hér. Ég held að brýn þörf væri á því að endurskoða þetta.

Aftur komum við inn á það að þar er okkur, með slíkt ákvæði í lögunum, í lófa lagið að hafa ákveðna skoðun á því hvaða sjónarmið eiga ríkt aðgengi þarna inn, hvaða þekkingu, hvaða færni við erum að fá inn í þennan sjóð með stjórnarmönnum, hvort sem það er gert með því að fjölga í stjórninni eða hafa það fyrirkomulag öðruvísi eða vera með undirstjórnir, fagstjórnir eða hvernig það er. Það er sú umræða sem hefði verið gott að geta lesið út úr nefndaráliti að farið hefði verið í innan nefndarinnar, ekki bara að hér þyki ástæða til að skoða þetta.

Það er líka þetta með gegnsæið og kannski erum við svolítið upptekin af því, ég og félagar mínir í Viðreisn. Hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson háði harða baráttu til að fá ákveðnar upplýsingar um styrkúthlutanir á grundvelli búvörusamninganna í landbúnaði. Við fundum sannarlega þá að djúpt er á slíkum upplýsingum, sem er einfaldlega algjörlega galið þegar maður hugsar um hvaðan peningurinn kemur og til hvers hann er ætlaður. Ef eitthvað á að fara eftir úthlutunarreglum og vera unnið eftir gegnsæjum leikreglum, þá er það nákvæmlega þetta, þ.e. meðferð ríkisfjármuna og sérstaklega þegar þeir eru ætlaðir í styrkveitingar.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands kemur fram, m.a. í ljósi hlutverks sjóðsins hvað varðar loftslagsmál, „að sjóðurinn eigi einnig að geta stutt orkutengd verkefni sem stuðla að eða taka tillit til náttúruverndarstefnu stjórnvalda“. Náttúrufræðistofnun leggur það til að umhverfis- og auðlindaráðuneytið eigi beina aðild að stjórn sjóðsins. Það er ein leið. Þá kem ég að því hvað væri gott að fá úr grasrótinni fólk með fagþekkingu eða skoðun á þessum málum. Ég sé fyrir mér að umhverfissamtök geti tilnefnt stjórnarmenn eða aðilar sem búa að sérþekkingu á sviðinu og geti tryggt þá fagmennsku sem þessi starfsemi krefst.

Ég held að við séum öll mjög meðvituð um það að okkar besta þekking á þessu sviði verður ekki besta þekkingin eftir örfá ár, það er svo mikil þróun í þessu, þannig að við þurfum að hafa þor til að hleypa fólki með kraftinn, nýja þekkingu og stórar hugmyndir og skoðanir að borðinu í þessum málum. Og auðvitað í leiðinni að vinda ofan af því sem við þekkjum sem pólitískar skipanir í stjórnir sem eru þá ógagnsæjar og vinna þessu máli ekki framgang, þó að tilgangurinn sé kannski góður fyrir þá sem þær skipa. Það er bara óþarfi að vinna svona gegn því markmiði sem við erum öll orðin sammála um og það er að byggja upp traust almennings á stjórnsýslunni. Þetta gerir það ekki. Ég meina þetta bara. Ég þarf ekki að lýsa því yfir að ég beri vantraust til núverandi ráðherra sem skipar í stjórn eða þeirra sem hann skipar, þetta snýst ekki um persónurnar, þetta snýst um leikreglurnar. Þær þurfum við. Þess vegna finnst mér vont í svona litlu og einföldu máli, þ.e. nú tala ég með tilliti til texta og umfangs frumvarpsins, og í svona góðu máli, að við förum ekki þá leið.

Ég hefði viljað sjá þetta breytt og sérstaklega í ljósi þess að málið verður kallað til nefndar eftir 2. umr. þar sem ákveðið var að gera einhverjar breytingar sem ég þekki ekki nægjanlega vel til, en voru tengdar vöxtum sem er hið besta mál. Við þurfum að hafa það á hreinu líka. En ég hefði viljað sjá nefndina taka annan snúning á þessu og taka alvöruumræðu og rökstyðja niðurstöðuna, en ekki fá svona „af því bara“ útkomu í ljósi allra þessara athugasemda við málið og gagnrýni til þess bærra aðila sem vilja vel vegna þess að þetta er gott mál. Það hefði verið mjög gaman að sjá það fara með fljúgandi bravör hérna í gegnum þingið í staðinn fyrir að lenda í svona gagnrýni.