150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:11]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, þetta hefði getað farið mjög vel því að markmiðin eru frábær og þau sjónarmið sem þarf að hafa til hliðsjónar eru frábær. Ráðherra vill bara fá að ráða þessu öllu saman. Þetta er svona einstrengingsháttur sem maður sér stundum hjá ráðherrum. Þeir vilja bara fá að ráða öllu sjálfir. Þess vegna má í rauninni bara skemma fyrir málunum og skemma fyrir þessum sjóði. Það skemmir að sjálfsögðu fyrir þegar kjörnir fulltrúar þurfa að fara upp í pontu og koma í veg fyrir að sett sé á fót fyrirkomulag þar sem ráðherrann ræður það miklu að freistnivandinn er til staðar og fagleg sjónarmið komast illa til skila.

Eins og hv. þingmaður nefndi rétt áðan breytast hlutir mjög hratt. Förum aðeins yfir það hverju þessi sjóður á að sinna. Hann á í raun að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkuauðlinda, draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka nýtingu á innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum. Við bætist orkuöryggi, samkeppnishæfi á sviði orkumála og allt þetta þarf að samrýmast orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og loftslagsstefnu ríkisins. Þetta er rosalega víðtækt og breytist rosalega hratt. En í stjórn eru þrír aðilar sem ráðherra skipar sjálfur sem starfa eftir reglugerðum hans. Þannig verður það eftir að samþykkt verður frumvarp ráðherra sem atvinnuveganefnd má ekki breyta einu sinni, á þeim forsendum sem þarna var gert, ólíkt því sem var t.d. með Matvælasjóð og annað. Það á ekki einu sinni að gera neinar faglegar kröfur til þeirra þriggja aðila sem koma inn þannig að nei, þetta er hin versta málsmeðferð og tillaga hjá hæstv. ráðherra, að geta ekki bara beygt sig undir það að hún ræður ekki öllu. Hún þarf að átta sig á því að þegar fram koma sjónarmið um það að fagleg sjónarmið við vinnslu svona mála, við útdeilingu skattfjár, skuli höfð að leiðarljósi þá er mikilvægt að gera það. Ég sé að ráðherra er kominn í salinn, en ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni og vil spyrja hvort hún sé hissa á því að atvinnuveganefnd og þeir sem studdu (Forseti hringir.) að hafa málið óbreytt en hafa ekki sjónarmið um faglegar forsendur komi ekki einu sinni með rök fyrir því. (Forseti hringir.) Þeir sögðu að þeim fyndist það bara nóg. Þeim finnst bara nóg að hafa fólk (Forseti hringir.) kosið á þeim forsendum að gerðar séu lágmarkshæfniskröfur. Þeim finnst það nóg.