150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:13]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Þetta er nákvæmlega það sem málið snýst um, þetta er svo viðamikið hlutverk. Við getum farið hina leiðina og sagt: Þetta er ekki endilega stærsti sjóður í landinu þegar kemur að fjármagninu sem í hann er sett núna en það dregur ekkert úr mikilvægi þess verkefnis sem hann hefur. Eins og hv. þingmaður kemur inn á eru þetta verkefni á grundvelli orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum. Það er ekki einfalt mál eða lítið.

Hv. þingmaður spyr hvort ég sé hissa á því að búið skuli hafa verið svo um hnútana af hálfu nefndarinnar. Ég ætla að halda áfram að vera hissa þegar við vinnum svona. Það er ákveðin uppgjöf að hætta því, finnst mér. Mér finnst það miður og ég held að við ættum að fara að temja okkur að vera gagnrýnni á okkur sjálf í þessari vinnu og hlusta á umsagnir og gagnrýni, jafnvel þegar þær lúta að einhverju sem okkur þykir erfitt að kyngja. Þá kem ég að orðinu freistnivandi sem hv. þingmaður hefur töluvert talað um, okkur er nefnilega í opinberri umræðu hér á landi oft tamt að persónugera svoleiðis umræðu og það er kannski full ástæða til, umræðan er oft óvægin en við verðum, ef við ætlum að ná árangri í því að tryggja gegnsæi og hafa í heiðri skýrar leikreglur, að temja okkur að hrökkva ekki alltaf í vörn þegar bent er á að við séum að búa til aðstæður sem hægt er að misnota. Það er grundvallarmunur á því að gagnrýna þær aðstæður og því að saka einhvern eða einhverja um spillingu og við verðum líka að halda í þann mun. (Forseti hringir.) Það má ásaka þegar maður hefur ástæðu eða sannanir fyrir því. (Forseti hringir.) En við verðum að geta gert athugasemd við að þær aðstæður séu búnar til að það sé hægt. Við verðum (Forseti hringir.) að geta tekið þá umræðu.