150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, þegar allir endar eru hjá hæstv. ráðherra þá er ákvörðunarvaldið algerlega þar. Ég vil koma í veg fyrir þann misskilning að mér finnist kjörnir fulltrúar ekki geta sinnt starfi sínu. En það er auðvitað mikill munur á kjörnum fulltrúum og einstaklingum sem skipaðir eru í stjórn af ráðherra. Kjörnir fulltrúar hafa umboð frá þjóðinni til að sinna stefnumálum fyrir þjóðina og eru kjörnir til þess og leita ráðgjafar vegna þess að augljóslega getum við ekki verið sérfræðingar í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur. Við þurfum sömuleiðis að láta sannfæringuna leiða okkur áfram. Mér finnst það annars eðlis en að vera skipaður í stjórn sjóðs sem er ætlað að meta faglegar umsóknir og verkefni sem eiga að skila þjóðarbúinu ákveðnum ávinningi. Það er kannski í því sem ég var að tala um að munurinn fælist og þess vegna sem ég tala um (Forseti hringir.) pólitískt yfirbragð á þessari stjórn og spyr hvort það væri þá ekki lágmark að hafa hæfnis- og reynsluskilyrði þarna inni.