150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:25]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, akkúrat, ég áttaði mig á því að við erum að tala um sama hlutinn þarna, það er engin spurning. Við erum hörundsár stétt, ég vildi bara hafa það á hreinu að þetta snerist ekki um að ég vildi halda pólitíkinni alveg úti. En það er kannski ein leið sem hægt er að fara — þetta mál er nú líklegt til að fara í gegn svona, og það kom líka fram í umsögn Samtaka iðnaðarins — að í lögum yrði kveðið á um skyldu sjóðsins til að birta opinbera skýrslu um starfsemina. Það var einhvern veginn, ef ég skil þetta rétt, tónað niður í meðförum meiri hlutans, þannig að það væri nóg að það kæmi fram í ársskýrslu Orkustofnunar. Ef gegnsæið í skipun stjórnar er ekki neitt þá væri alla vega hægt að tryggja gegnsæi í vinnunni þannig að það væri þá endurskoðað og við hefðum skýran og greiðan aðgang að því hvernig úthlutunin væri, (Forseti hringir.) hlutföll og annað slíkt og hvert þetta færi, þannig að við hefðum eftirlitshlutverkið þeim megin í lagi. Það væri önnur leið.