150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:34]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni kom ég svolítið inn á ýmis verkefni sem Orkusjóður hefur fjármagnað undanfarin ár sem eru gríðarlega mikilvæg fyrir samfélagið og skapa auk þess tækifæri fyrir okkur erlendis. Mig langaði til að nýta þann stutta tíma sem ég hef til að fara aðeins ofan í eitt þeirra verkefna, eina tegund þeirra, sem eru varmadælur. Orkusjóður fjármagnaði milli áranna 2006–2018 tólf varmadæluverkefni í Snæfellsbæ, Langanesbyggð, á Seyðisfirði, Ísafirði og víðar. Varmadælur eru afskaplega áhugavert fyrirbæri og það þarf engan Carnot til að fjalla um það, þetta er mikilvæg tækni og hefur færst í aukana að hún sé notuð.

Ég þekki best varmadæluverkefnið í Vestmannaeyjum, en til að lýsa aðeins ferlinu þá er 1 MW raforku notað til að dæla upp sjó sem er á milli 8 og 12°C heitur eftir aðstæðum. Sjórinn er keyrður í gegnum rör sem er tengt við annað rör sem inniheldur ammóníak. Það hitnar náttúrlega við þetta, það dregur hitann úr sjónum og lækkar hitastig hans niður í 5°C. Ammóníakið er svo leitt í pressu sem eykur þrýstinginn á því og þaðan er það leitt yfir í ferskvatnsrör þar sem ferskvatnið hitnar, tekur við hitanum, og skilar sér út í kringum 70°C heitt. Raforkan sem fer inn í þetta kerfi er sem sagt 1 MW, en hitaorkan, varmaorkan sem fer út úr kerfinu, er 4 MW. Þarna verður fjórföldun á nýtingu raforkunnar með því að kæla sjóinn niður í 5°C. Þetta er ótrúlega gagnlegt fyrir jafnvel stærri bæi en Vestmannaeyjar, það eru þrjátíufalt fleiri íbúar í Reykjavík einni og sér, og svo ekki sé talað um köld svæði á Vestfjörðum eða á Austfjörðum. Og ef við værum nú svolítið sniðug þá gætum við flutt út þessa tækni út til notkunar í stærri borgum þar sem er þokkalega hlýr sjór. Ég nefni t.d. Boston sem mjög gott dæmi, þar er engin fjarhitaveita af því tagi sem við þekkjum á Íslandi. Ef þetta væri gert myndi það bæði nýta orkuna betur þar í landi og vera þokkalega öflug leið til að kæla sjó vegna þess að þetta kælir sjó. Mér finnst það ansi merkilegt. Það er náttúrlega ekki nóg til þess að sporna við gróðurhúsaáhrifum eða loftslagsbreytingum en þetta er smáskref í þá átt og spilar inn í stóra samhengið.

Þegar ég hugsa um Orkusjóð þá hugsa ég svolítið um svona verkefni, þær leiðir sem við höfum sem land til að fjármagna stórar hugmyndir sem geta breytt samfélögum. Það eru mörg samfélög á Íslandi sem hafa notið góðs af þessari tækni og það eru mörg samfélög sem eiga eftir að njóta góðs af henni. En þetta er svolítið háð því að það sé til fjármagn og þekking í sjóðnum til að geta gert þetta með nógu drjúgum hætti. Þegar við horfum á það sem er að gerast þá eru gerðar meiri og meiri kröfur um raforku með rafbílavæðingu og öðru. Við getum ekki lengur brennt bara fornleifar sem hafa orðið að olíu til að fá alla okkar orku. Við þurfum að nýta þá orku sem við framleiðum. Í því felst að við þurfum að nýta alla orku sem við framleiðum í dag betur en við gerðum í gær. Ef við erum ekki svolítið opin fyrir því að nýta bestu mögulegu fagþekkingu sem til er hverju sinni og svona sjóðir séu með einhvers konar fagráð eða sérhæfingu í sinni stjórn, er hætt við því — þó svo að þessi fínu verkefni hafi verið vel fjármögnuð, kannski ekki nógu vel fjármögnuð en þó vel fjármögnuð og hafa gengið undanfarin ár — að við missum einhvern tímann þráðinn. Einhvern tímann gleymum við af hverju við vorum að þessu og það má ekki gerast. Varmafræðin er harður stjórnandi, við lútum öll hennar valdi en við þurfum ekki að klúðra hlutunum með því að vanda ekki til verka og nýta ekki þau tækifæri sem við höfum eins vel og mögulegt er hverju sinni.