150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:40]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég var svo glöð að heyra hv. þingmann ræða mál sem við höfum kannski snert of lítið á í umræðunni hér í dag sem eru varmadælurnar. Sú tækni skiptir ótrúlega miklu máli fyrir köldu svæðin því þarna er allt í einu komið tækifæri til þess að nýta alla vega þann litla varma sem er fyrir hendi, eins og hv. þingmaður nefndi í sínu dæmi um varmadælurnar í Vestmannaeyjum. Það skiptir nefnilega mjög miklu fyrir þessi svæði að ná aðeins niður kyndikostnaðinum með bættri nýtingu á varma sem er til staðar. Mig langaði að þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta upp. Við ræddum hitaveiturnar svolítið fyrr í dag og hvaða verðmæti liggja í þeim en gleymdum kannski svolítið að ræða þann kostnað sem köldu svæðin verða fyrir. Þess vegna er svo mikilvægt að styrkja þau til að nýta tæknina, tæknin er sem betur fer á fleygiferð, til að minnka kostnaðinn hjá sér. Það vekur upp spurningu mína sem er um kostnaðinn Það eru aðeins um 25 millj. kr. í Orkusjóði til úthlutunar til svona verkefna og reyndar líka til jarðhitaleitar, einangrunar húsa og fleira. Telur hv. þingmaður ekki ástæðu til að efla einmitt þennan þátt Orkusjóðs og setja meiri fjármuni í að styrkja fleiri til að nýta orkuna betur og minnka kostnað við húshitun?

(Forseti (HHG): Forseti vekur athygli á því að jafnvel hvísl í þingsal, ef það er langvarandi, hefur tilhneigingu til að trufla ræðumann (AFE: Þetta var mjög truflandi.) og óskar eftir því að löng samtöl séu tekin utan þingsalarins.)