150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:46]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þegar maður horfir á jörðina sem eitt kerfi þá erum við náttúrlega að fá til okkar hita frá sólinni. Það er hitinn sem við höfum, hann safnast upp, hann geislast út að einhverju leyti, við færum hann á milli og nýtum á mismunandi vegu. En þegar upp er staðið er jarðskorpan endanleg auðlind hvað varðar hita. Við erum engan veginn byrjuð að ganga á hana en nú þegar er komið í ljós að við þurfum að bora dýpra og dýpra á ýmsum stöðum til að ná þeim hita sem við þurfum. Það eru kannski vandamál sem fylgja því sem við þekkjum ekki almennilega. Ég held að við ættum algjörlega að leita að og nýta þessa varmaorku þegar við getum en ég held að við ættum líka að vera opin fyrir því að nýta þann varma sem er í andrúmsloftinu og í sjónum umfram það sem við gerum í dag. Þess vegna er ég svo hrifinn af varmadælum, þá getum við nýtt mikið magn af vökva með lágum hita á sama hátt og við nýtum lítið magn af vökva með háum hita úr jarðborholum.