150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:53]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki bara 3. gr. sem er strípuð. Frumvarpið er í níu greinum, þar af ein grein um gildistöku, og það er voðalega lítið í þessu ef maður hugsar um það hvernig sjóður er settur upp og hvernig hann á að vera skipulagður. Mér finnst 8. gr. t.d. afskaplega áhugaverð. Þar segir að ráðherra skuli „setja í reglugerð nánar fyrirmæli um skilyrði fyrir framlögum úr Orkusjóði, undirbúning úthlutunar, lánveitingar,“ o.s.frv. Maður veltir því fyrir sér hvort ekki sé réttara að tilgreina þetta nánar.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að við eigum að fara út í þann lagalega maximalisma sem hefur tíðkast t.d. í Bandaríkjunum eða í Evrópusambandinu, en hugsanlega ættum við alla vega að reyna að vera það nákvæm að ekki fari á milli mála hvert verkefnið sé.