150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:55]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir fróðlega ræðu sem upplýsti mig um eitt og annað sem ég hafði ekki áður gert mér fulla grein fyrir. Þó að maður hafi vissulega heyrt um varmadælur í Vestmannaeyjum hafði ég kannski ekki alveg áttað mig á því hversu mikla þýðingu þær hafa og hafa haft. Hitaveitan okkar er náttúrlega heimsfræg og eins og við vitum hafa ýmsir ráðamenn jafnvel viljað eigna sér heiðurinn af þeirri framkvæmd, t.d. Winston Churchill, sem sagðist hafa stungið þeirri hugmynd að íslenskum ráðamönnum þegar hann var hér á ferð á sínum tíma hvort þeir gætu ekki nýtt heita vatnið einhvern veginn og þeir hafi brugðist við með þessu.

Ég tek undir áhyggjur sem hér komu fram varðandi það að ráðherrar skipi í þessa stjórn og að ráðherrar hafi of mikið um það að segja hvernig þessum málum sé háttað, vegna þess að mér virðist að það sé angi af ákveðinni tilhneigingu, stærra vandamáli, sem lýsir sér í því að ráðherravaldið vill oft eigna sér heiðurinn af málum þar sem heiðurinn á heima annars staðar. Það tekur til sín mál sem komu kannski frá stjórnarandstöðunni og leggur síðan fram sem ráðherramál. Við höfum ótal dæmi um slíkt og við munum eflaust fá ótal dæmi um slíkt áfram. En mig langar að spyrja hv. þingmann hvort heita vatnið okkar sé ekki eins og olían, auðlind sem rétt eins og olían, (Forseti hringir.) sem við þurfum að passa upp á og þurfum að gæta (Forseti hringir.) ákaflega vel og að það eigi eftir að skapa okkur (Forseti hringir.) ómældan auð í framtíðinni ef rétt er á haldið. Er þá ekki mikilvægt að vísindamenn fái að ráða þar för?

(Forseti (HHG): Forseti verður að biðja hv. þingmenn um að virða ræðutímann.)