150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:00]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er að passa upp á tímann. Ég deili alveg þeirri skoðun hv. þingmanns að ákveðin spenna þurfi að vera milli vísindamanna og kjörinna fulltrúa almennings, pólitískra fulltrúa, vegna þess að vísindamenn þurfa náttúrlega líka sitt lýðræðislega aðhald, þannig að þeir geta ekki ráðið för alveg einir. En aftur á móti þarf ævinlega að byggja á bestu fáanlegu þekkingu.

En svona rétt til að fylgja því eftir sem ég var að tala um áðan: Finnst hv. þingmanni ekki að hægt sé að gera miklu meira en þarna er gert ráð fyrir af því að reyna markvisst að setja fé og kraft í það að finna heitt vatn á köldum svæðum?