150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:01]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég nefndi í blálokin á fyrra andsvari möttulstrókinn. Það eru í rauninni tveir staðir í heiminum þar sem er byggð ofan á möttulstrók á þann hátt sem við höfum hér, hinn staðurinn er Havaí.

Ég vil endilega að við þróum áfram tæknina með það fyrir augum að geta nýtt hana hér eins vel og mögulegt er hér, en líka þróað hana með það í huga að flytja hana út til annarra landa. Ég tel að varmadælur séu miklu betra dæmi um útflytjanlega tækni. Ísland er þó langt því frá eina landið sem er með varmadælur. En ef við gætum selt borgum eins og Boston íslenskar varmadælur væri það í rauninni mikil grundvallarbreyting á eðli hagkerfis okkar, held ég. Þó svo að við eigum auðvitað að leita að heitu vatni á köldum svæðum og þar með væntanlega að gera þau að heitari svæðum, þá er það skör neðar í forgangsröðuninni, að mínu mati, en að nýta t.d. hitann í sjónum, nýta þá tækni sem við getum flutt út (Forseti hringir.) og gera hana betri og einnig útflutningsvæna.