150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:03]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þetta hafa verið mjög áhugaverðar umræður og mörg sjónarhorn komið á málið. Mig langar til að beina sjónum okkar að málum sem tengjast þessu svo sannarlega. Ég held að það megi með sanni segja að í vissum skilningi sé Ísland land orkunnar. Við erum samfélag sem er svo heppið að eiga orkulindir sem eru mjög áhugaverðar og geta skapað og hafa skapað gríðarleg verðmæti í landinu. Það þarf ekki að rifja það upp fyrir hv. þingmönnum að við höfum virkjað vatnsafl um nokkuð langan tíma, eigum vatnsaflsvirkjanir af ýmsum stærðum og gerðum, sem hefur á margan hátt verið undirstaða fyrir ýmis verkefni, stór og smá, sem hér hafa verið framkvæmd.

Síðan erum við, eins og hér var rætt talsvert um í fyrri ræðum hv. þingmanna, líka svo lánsöm að Ísland er á þeim stað að hér er mikil varmaorka í iðrum jarðar og við getum nýtt hitann úr jarðskorpunni sem kemur þá upp sem heitt vatn eða heit gufa. Þetta höfum við smátt og smátt verið að læra að beisla og nýta og erum svo lánsöm að geta hitað upp meiri hluta alls húsnæðis á Íslandi með jarðvarma. Síðan eru til aðrir orkugjafar sem við höfum hingað til ekki sinnt mikið, við erum t.d. að stíga fyrstu skrefin í nýtingu vindorku sem er mjög spennandi kostur. Svo vil ég líka nefna það, sem er nú svona á hugmyndastigi og tilraunastigi víða um heim og menn eru farnir að huga að því hér líka, að virkja sjávarorku eða sjávarföllin til að skapa orku. Að þessu leyti búum við við aðstæður sem margir gætu öfundað okkur mjög af.

Þetta hefur allt saman leitt af sér að við höfum eignast fyrirtæki á sviði orkumála og nýtingu orku. Nægir þar að nefna fyrirtæki á borð við Landsvirkjun sem hefur haft umsjón með virkjun vatnsaflsins að mestu. Og við höfum orðið talsverða reynslu af því að reka dreifikerfi raforku vítt og breitt um landið, oft og tíðum við mjög erfiðar aðstæður veðurfarslega og þarf að fara um fjalllendi og alls konar ófærur og torfærur, þannig að við kunnum það. Síðan eigum við stórfyrirtæki sem reka hitaveitur og annast rekstur þeirra.

Í gegnum margt af þessu höfum við byggt upp mikla þekkingu á sviði verkfræði og tækni og verkkunnáttu. Við höfum smátt og smátt verið að hasla okkur völl við það að flytja út þessa þekkingu til annarra landa. Það eru íslensk fyrirtæki eða fyrirtæki sem eiga rætur hingað að rekja sem eru farin að taka að sér stór verkefni, stór ráðgjafarverkefni víða um heim og taka að sér að leggja hitaveitur og annast virkjunargerð og svo fram eftir götunum.

En þá fer ég kannski tengja þetta við Orkusjóð því að ég held að þarna séu svo mikil vannýtt tækifæri til að hagnýta allar þessar aðstæður sem við höfum hér til að skapa enn meiri þekkingu og útflutning sem byggir á hugviti og skapar störf hér á landi, bæði á sviði tækni og þróunar, verkfræðiþjónustu ýmiss konar og hönnunarstarfsemi sem tengist þessum málum. Það hafa verið að spretta upp fyrirtæki, sum þeirra eiga sér svo sem langa sögu. Mig langar að nefna t.d. fyrirtækið Set á Selfossi sem hefur náð gríðarlegum árangri í að framleiða alls konar hitaveiturör og lagnir, náð mjög góðum árangri þar. Síðan eigum við fyrirtæki sem hafa verið að hasla sér völl sem tengist alls konar hugbúnaði til að stýra orkunotkun. Má þar nefna fyrirtækið Marorku, sem hefur nú reyndar innlimast erlendu fyrirtæki, sem var með alls konar stýribúnað í kringum olíuvinnslu skipa.

Það sem ég hef alltaf undrað mig á er það — nú sé ég að tími minn er búinn þannig að ég verð væntanlega að fara í aðra ræðu hér á eftir, en ég ætla bara að nefna það rétt í blálokin og syndga örlítið upp á tímann(Forseti hringir.) að við framleiðum lítið sem ekkert af búnaði í kringum orkumál. Það hefur alltaf vakið furðu mína og ég kem að því í síðari ræðu.

(Forseti (SJS): Er þingmaðurinn ekki búinn að tala tvisvar? Forseti athugar það. Við skulum taka andsvör fyrst, þau eru þó nokkur, þessi kröftuga ræða kveikti mikla þörf fyrir andsvör.)