150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:11]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hv. þingmaður kom inn á nokkur atriði sem hefur kannski skort aðeins á í umræðunni í dag, í rauninni aðferðirnar sem við notum til að framleiða orku. Það er vatnsaflið, jarðvarminn og í auknum mæli vindorkan og nýsköpunin í tengslum við þetta sem er náttúrlega gríðarmikil. En því miður, eins og hv. þingmaður náði að koma að í blálokin, höfum við verið eftirbátar annarra þjóða þegar kemur að því að tryggja okkur einkaleyfi, ekki síst á sviði jarðvarma. Það er áhyggjuefni og ef ég man rétt höfum við rætt það áður í þingsal að við þurfum einhvern veginn að efla það. Við höfum svo sem verið að taka einhver skref í þá átt að auka þekkingu á sviði einkaleyfaréttar og auka hvatningu til sérfræðinga okkar á þessu sviði af því að þeir eru svo sannarlega margir, eins og hv. þingmaður kom inn á. Í því samhengi langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki einmitt tækifæri til að efla tækniþróun, og þá mögulega í gegnum Tækniþróunarsjóð líka, á þessu sviði og hvort það sé ekki einmitt ástæða til að leggja meiri áherslu á hagnýtingu þekkingarinnar sem svo sannarlega er til staðar í landinu. Okkur ber alla vega að reyna að tryggja hagnýtingu hennar.