150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:24]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það þannig að ég hef ekki kynnt mér umræddar verklagsreglur sem hv. þingmaður vitnar til. En eins og þetta lítur út hér í frumvarpinu og við fyrsta yfirlestur þá skortir skýringu. Ég ítreka að ég var ekki í nefndinni og hlustaði þess vegna ekki á gesti og hef ekki lesið umsagnir vandlega og veit ekki hvort þessi þáttur málsins kom til umræðu. En ég hefði talið að það væri mjög æskilegt og, eins og ég sagði áðan, nauðsynlegt að það væri alveg skýrt hvers eðlis sjóðurinn er. Er það þá stjórnin ein sem ákveður það, hún vill svona og svona verkefni? Er það hugsanlega ráðherrann sem beinir einhverjum tilmælum til stjórnarinnar? Eða er auglýst með almennum hætti eftir tiltekinni gerð af verkefnum og er síðan samkeppni um þau?