150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:27]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, klettasnasarhangi, það er mjög gott orð og lýsandi. Ég skal viðurkenna að það var nú samt ekki af svona mikilli list sem ég ákvað að enda ræðu mína heldur, eins og kom fram, varð smámisskilningur hér milli mín og hæstv. forseta um ræðutíma þannig að ég ætlaði að hafa ræðuna lengri og gera grein fyrir því hvað ég hefði alltaf undrast. En ég skal byrja að reyna að upplýsa hv. þingmann og aðra tilheyrendur um hvað það er sem ég hef alltaf undrast í þessu samhengi öllu. Þá vil ég samt sem áður segja að þetta er auðvitað ekki undantekningarlaust frekar en margt annað. Við höfum sérstöðu og höfum komið upp mikilli þekkingu hér í landinu og erum vissulega farin að flytja hana út í vissum skilningi, jafnvel í stórum stíl. Á sama tíma og Danir t.d. eru, eða voru, ég er ekki alveg viss um stöðuna á þeim núna, einir stærstu vindmylluframleiðendur í heimi, og eru með fyrirtæki á borð við Danfoss sem framleiðir ofnakerfi, ofnaloka, stýringar á alls konar kerfum, hefur mig alltaf undrað að við framleiðum — nú vil ég ekki nota orðið ekkert því það er örugglega ofmælt — allt of lítið af búnaði. Hér var nefnt varmadæluverkefni í Vestmannaeyjum. Það er allt sett saman af íslensku hugviti en ég efast um að stórir íhlutir hafi verið framleiddir á Íslandi.