150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mig langar að leggja til við hæstv. forseta að hann geri tveggja til fimm mínútna hlé á þessum fundi þannig að hv. þingmenn, sem það á við, geti klæðst að fullu. Ég vil einnig beina því til forseta, svona til vara, að þeim þingmönnum sem ekki hafa séð sér fært að klæða sig að fullu verði meinaður aðgangur að þingsalnum og til þrautavara legg ég til að sömu þingmönnum, sem ekki hafa séð sér fært að klæða sig að fullu, verði meinaður aðgangur að ræðustóli Alþingis. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ekki er hægt að innræta mönnum sjálfsvirðingu. Það er ekki hægt að gera neitt í því ef menn bera ekki virðingu fyrir sjálfum sér. En mér þykir það heldur ömurlegt þegar menn bera ekki virðingu fyrir elstu stofnun landsins og þeim hefðum og reglum sem þar hafa gilt um árabil.