150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég sendi fyrirspurn til hæstv. ráðherra fyrir nokkru varðandi jafnréttismál, kynjamismunun. Einhverjar konur voru berbrjósta í sundi og þær voru sendar upp úr. Kona sendi mér fyrirspurn, hvort ég gæti spurt ráðherra um þetta. Partur af því var klæðaburður fólks, með leyfi forseta:

„Er stofnunum og opinberum fyrirtækjum heimilt að setja reglur um klæðaburð fólks, t.d. um að konur séu í kjól og karlar í jakkafötum eða að konur séu með huldar geirvörtur í sundi en karlar ekki?“

Í svari ráðherra segir:

„Atvinnurekendum er heimilt að setja reglur, hvort sem þær eru skráðar eða óskráðar, um klæðaburð starfsfólks svo framarlega sem reglurnar fela ekki í sér brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglunni um jafna meðferð karla og kvenna á vinnumarkaði, sbr. lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (hér á eftir nefnd jafnréttislög).“

Alþingi er ekki virða þetta. Hér eru reglur um að karlmenn verði að vera í jökkum. Auðvitað eiga allir að vera snyrtilega klæddir en konur þurfa ekki að vera það. (Forseti hringir.) Konur þurfa ekki að vera í jökkum. (Gripið fram í: Auðvitað þurfa allir að vera snyrtilega klæddir.) Auðvitað eiga allir að vera snyrtilega klæddir en konur þurfa ekki að vera í jökkum. (Forseti hringir.) Það er ekki verið að fylgja þessu sem ráðherra segir að séu lög í landinu.