150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:39]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er til stétt fólks sem kallast stílistar sem er fólk sem hefur vit á því hvernig aðrir eigi að vera til fara og ráðleggur fólki mikið um það hvernig það eigi að vera til fara. Oft eru þetta mjög snyrtilegir karlmenn sem hafa þennan starfa með höndum og þetta er ágætur starfi. Við höfum líka þessa stétt hér í þinginu, þingmenn Miðflokksins sem koma reglulega hingað upp og segja okkur hinum til um það hvernig við eigum að klæðast. Þetta eru stílistar þingsins. Þeir hafa náttúrlega með framgöngu sinni vakið þjóðarathygli fyrir háttvísi og fallega framkomu og verið öðrum til eftirbreytni um það. En ég verð þó að segja fyrir mína parta, og ég biðst forláts á því, að ég biðst undan þessum ráðleggingum.