150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:43]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Sjálfur er ég ekki þekktur stílisti. Og ég get líka fullvissað þingmanninn um að þetta er ekki vitlausasta umræðan sem hér hefur verið. En snyrtilegur klæðnaður í þingsal hefur auðvitað að hluta til með virðingu þingsins að gera. Það hefur ekkert með kynslóðabil að gera. Að vera klæddur eins og maður sé dreginn upp úr súr hefur ekkert með kynslóðabil að gera, það er bara ákveðin kurteisi. Við erum hérna í beinni útsendingu fyrir framan þjóðina og að koma hér á sokkaleistunum, jakkalaus, er fyrir neðan allar hellur, að mínu viti, hæstv. forseti, og hefur enn síður með jafnan rétt karla og kvenna að gera. Hvernig kom það í umræðuna? (Gripið fram í: Hvað með hárið?) Bítlahár var einu sinni í tísku. (ÞSÆ: Það verður að greiða það samt. Er það ekki snyrtilegt?) Jú, ég er að reyna að greiða það. (Forseti hringir.) Ég er bara að segja að við eigum að sýna þjóðinni virðingu með því að koma sæmilega klædd í ræðustól.