150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:45]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Brynjari Níelssyni. Við eigum að sýna þjóðinni virðingu. Mér finnst þessi umræða ekki vera neitt sérstaklega virðingarverð gagnvart neinum í rauninni. Við vinnum hjá 1070 ára gamalli stofnun, eða kannski 150 ára gamalli stofnun, eftir því hvernig er talið, en það er ljóst að ýmislegt hefur breyst á þeim tíma. Fólk í héraðsdómi gengur um í skikkjum en það er ekki krafa um það hér. Við höfum lagt af bindisskylduna góðu og ég er rosalega feginn því að hún sé ekki lengur í gildi. En klæðnaður þróast, samfélög þróast. Það klæðir enginn sig í dag á þann hátt sem fólk klæddi sig á Alþingi 930 og það er örugglega hið besta mál. Við sjáum það líka í öðrum löndum. Í Bretlandi eru bara örfá ár síðan fólki var ekki lengur gert skylt að vera með hárkollur. Það eru ekki allar hefðir góðar, herra forseti. (Forseti hringir.) Það er bara fínt að við hættum að agnúast út í svona rugl þegar við gætum verið að nota tímann í betri hluti.