150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Bara mjög stutt. Ég er búinn að senda bréf til forsætisnefndar um að hún afgreiði þetta mál og þá skal það afgreitt á forsendum jafnréttislaga sem eru í landinu. Þetta svar frá jafnréttismálaráðherra er alveg skýrt, með leyfi forseta:

„Atvinnurekendum er heimilt að setja reglur, hvort sem þær eru skráðar eða óskráðar, um klæðaburð starfsfólks svo framarlega sem reglurnar fela ekki í sér brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglunni um jafna meðferð karla og kvenna á vinnumarkaði, sbr. lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.“

Þessi lög eru í gildi og stjórnarskrá en það er kannski ágætt að það komi fram að fyrsta reglan hér á þingi er sú að karlar þurfi að vera í jökkum og konur ekki. Hæstv. forsætisráðherra hefur komið hérna í Batman-sokkabuxum, með Batman-merkinu niður eftir öllu. Konur klæða sig mjög frjálslega hérna, sem er frábært. Við karlarnir viljum kannski fá að gera það líka. Þannig að ef það á að taka þetta upp í forsætisnefnd hef ég lagt til (Forseti hringir.) að það sé gert í anda stjórnarskrárinnar og jafnréttislaga. Forseti svarar því kannski hvort forsætisnefnd ætlar að taka þetta fyrir.