150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:53]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér er alveg sama hvernig fólk er klætt almennt og yfirleitt og læt mér það í léttu rúmi liggja. Virðing felst ekki í klæðaburði. Það er ekki endilega virðing í sjálfu sér að vera í jakkafötum, það geta verið eggjaslettur á bindinu og skyrtan getur verið illa girt og illa hneppt og það getur verið ljótar litasamsetningar, þetta getur verið ljótt og bara andstyggilegt og raun að horfa upp á þetta og maður ber ekki nokkra virðingu fyrir viðkomandi þó að hann sé klæddur svona. Virðing felst í því hvernig maður ber sig, hvernig maður talar, hvernig maður kemur fram við annað fólk. Virðing felst í því að bera virðingu fyrir tíma annars fólks, fyrir viðhorfum annars fólks, fyrir tilveru annars fólks. Virðing felst í því að eiga í samtali við annað fólk. Hún felst ekki í því að mæta með eggjaslettur á bindinu.