150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:54]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég var ekki viðstödd atvikið sem kveikti þessa umræðu hér, en ég get ekki látið hjá líða að tjá þá skoðun mína að mér þykir okkur hafa farið aftur í þessum þingsal hvað klæðaburð varðar. Mér finnst það skipta máli að við séum snyrtileg, auk þess að við eigum fyrst og fremst að koma vel fyrir og vera almennileg hvert við annað. Þannig að mér finnst alveg ástæða til að við ræðum aðeins okkar á milli hvort við getum ekki staðið okkur betur í því og sýnt meiri virðingu gagnvart þessari gömlu og virðulegu stofnun með því hvernig við komum fram og hvernig við klæðum okkur.

En mig langar þó að segja eitt. Eins og mér finnst yfirleitt áhugavert að ræða jafnréttismál, og mér finnst líka mjög áhugavert að velta því upp jafnt gagnvart konum og körlum, þá veit ég ekki alveg hvert við erum komin í samtalinu um jafnréttismál þegar við erum að velta fyrir okkur klæðaburði út frá því hvort maður er í jakka eða skyrtu eða kjól eða hvað. Ég held að þetta mál sé stærra og mikilvægara en svo að við eigum að blanda því inn í þessa umræðu hvort fólk var í jakka eða ekki.