150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:56]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég má til með að þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir innleggið, henni finnst aðeins of langt gengið að ætla að blanda jafnréttislögunum inn í þetta. En ég vil halda því til haga að það skiptir máli að manni líði vel í vinnunni, að maður sé ekki að kafna úr hita eða krókna úr kulda. Til dæmis er ein af fáum hátternisreglum sem gilda hér um klæðaburð kvenna sú að við megum ekki vera í lopapeysu. Þetta geta samt verið gullfallegar lopapeysur, en við megum ekki vera í þessum hálfgerða þjóðbúningi okkar Íslendinga til að halda á okkur hita. Og oft er okkur konunum töluvert kaldara en körlunum, og karlarnir eiga það til að ofhitna aðeins. En þeir þurfa að vera í jökkum sem eru oft allt of heitir. Það er ekkert voðalega þægilegt að sitja fastur í vinnunni og vera að stikna úr hita. Kannski gætum við sýnt hvert öðru smátillitssemi þannig að okkur líði vel í vinnunni.

En mig langar að spyrja hæstv. forseta, sem skoraði á hv. karlkyns þingmenn að mæta kjól: Ef þeir gera það, þurfa þeir þá að vera í jakka yfir kjólnum?