150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:00]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Þá hefur forseti ekki skráð niður fleiri í bili til að ræða fundarstjórn forseta. Forseti gerði athugasemdir við klæðaburð hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar og þakkar hv. þingmanni fyrir að verða vel við þeim tilmælum að klæða sig í samræmi við það sem lagt er upp með, t.d. í handbók sem þingmönnum er kynnt þegar þeir hefja hér störf. Fjölmargar stéttir í landinu klæðast með tilteknum hætti, það er hluti af starfi þeirra og starfsskyldum, og þeim sem bjóða sig fram til Alþingis ætti eða mætti, ef þeir hafa fylgst með stjórnmálum, vera það ljóst að það hefur líka verið hefð hér að fólk uppfylli ákveðnar klæðaburðarskyldur, sé snyrtilega og vel til fara og á mörgum stöðum, bæði í þingsköpum, siðareglum þingmanna og þessari ágætu handbók, er með einum eða öðrum hætti inn á það komið.

Forseta verður stundum hugsað til gamals texta þegar sem mest er rætt um virðingu Alþingis en þar stendur að þeir segi mest af Ólafi konungi sem hvorki hafi heyrt hann né séð. Í huga forseta snýst þetta um virðingu fyrir sjálfum sér, þingmannsstarfinu, stofnuninni Alþingi og samstarfsfólkinu. Þetta snýst kannski ekki síður um tillitssemi. Ef klæðaburður einstakra þingmanna veldur öðrum þingmönnum verulegum ama þá er spurningin hvort það sé ekki útlátalítið fyrir þá þingmenn að leysa það mál með því að vera a.m.k. það snyrtilega klæddir að öðrum þingmönnum þyki það ekki stórlega miður. Forseti þekkir þetta af reynslu sem er sjálfsagt að miðla af til hv. þingmanna því þegar ég tók fyrst sæti átti ég ein jakkaföt og gat ekki verið í þeim alla daga. Ég mætti hér stundum í peysu með V-hálsmáli, skyrtu og bindi og taldi mig gera þar eins vel og ég mögulega gat, var í mínum næstfínustu klæðum. En þá voru hér margir þingmenn sem töldu þetta ekki gott og töldu mig á það að það væri þá eðlilegra að ég leysti málið heldur en að 62 þingmenn aðrir liðu fyrir það hversu fátæklega ég væri klæddur. Þannig leystist það mál, af því að mér fannst það augljóst mál að það væri mitt að leysa það en ekki standa í leiðindum við alla hina félaga mína hér á Alþingi. Forseta er alvara þegar hann biður hv. þingmenn um að reyna þó að uppfylla a.m.k. þær vægu klæðnaðarskyldur sem enn eru við lýði og nýir þingmenn eru beðnir að uppfylla. Forseti trúir ekki öðru en að við getum a.m.k. sameinast um það, lagt það fram til þess sem við berum öll svo mjög fyrir brjósti, virðingar Alþingis.