150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:10]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég myndi segja að eftir að við höfum átt í þessu góða samtali um frumvarpið í dag og í kvöld mætti kannski gefa því þá heildarumsögn að það sé mínimalískt. Hér erum við með níu greinar, þar af eina sem lýtur að gildistöku, þannig að þetta eru átta efnisgreinar um óskaplega stórt og víðfeðmt hlutverk. Síðan galopnast í 8. gr. einhver hliðarveröld við frumvarpið þar sem er skylduákvæði um að ráðherra skuli setja reglugerð. Og síðan er sagt að stjórn Orkusjóðs geti sett nánari reglur og skilyrði. Svo er greininni lokað með því að segja að ráðherra sé heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð. Fyrir þá sem koma að þessu frumvarpi án þess að sitja í nefndinni og án þess að hafa stúderað samtalið eða forsöguna í kringum það þá blasir við að það er ansi mikið skilið eftir opið.

Varðandi stjórnarhætti þá tengist það aðeins því samtali sem við áttum fyrr í kvöld um skipan stjórnarinnar. 3. gr. mætti líka fá þá umsögn að hún sé mínimalísk. Þrír einstaklingar skulu skipaðir í stjórn til fjögurra ára, og síðan er hið augljósa sagt, að þar af skal einn vera skipaður formaður. Það færi langtum betur á því ef við sem eigum að setja þessi lög værum ögn skýrari í því til hvers er ætlast. Ég held að það myndi þjóna þessu regluverki og frumvarpi mun betur.