150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:12]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég bæti við því sem sagt var í nefndinni, það kom fram við 2. umr. í andsvörum við Njál Trausta Friðbertsson, framsögumann nefndarinnar í málinu, sem er samflokksmaður ráðherra sem leggur þetta frumvarp fram og fær að skipa alla í stjórn og setja þessa reglugerðarheimild og „beisiklí“ bara ráða þessu sjálfur. Nefndinni finnst þetta bara nóg. Henni finnast þetta vera góðir stjórnarhættir. Það sé nóg að stjórnin þurfi að ráðfæra sig við Orkustofnun og mögulega einhvern annan ef tilefni er til, og að hæfniskröfur þeirra þriggja aðila, sem eiga að fara með þetta rosalega víðtæka hlutverk og eru skipaðir til fjögurra ára í senn, séu bara almennar hæfniskröfur. Í rauninni er bara sagt að þeir megi ekki vera á sakaskrá, einhverjar algerar lágmarkskröfur. En hlutverk sjóðsins er víkkað út allsvakalega, eins og segir í 2. gr., þ.e. að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkuauðlinda, draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, auka nýtingu á innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum, stuðla að orkuöryggi og samkeppnishæfni á sviði orkumála og fylgja orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og loftslagsstefnu. Þetta er hlutverkið. Það á að skipa þrjá aðila, sem ráðherra sjálfur skipar til fjögurra ára, og þeir þurfa aðeins að ráðfæra sig við Orkustofnun. — Kommon. Ef ég þýði það: Koma svo. [Hlátur í þingsal.]

Ég ræddi við hæstv. ráðherra áðan og hún er að skoða þetta eitthvað, hvort ekki sé hægt að setja eitthvað meira þarna inn. Ég ræddi við einn stjórnarþingmann í matsalnum, frekar háttsettan, og hann sagði: Ha? Þetta er um orkustefnu, nýsköpunarstefnu, loftslagsstefnu, kannski ætti umhverfisráðherra að skipa einn þarna í stjórn.

Að sjálfsögðu ættu fleiri að koma að þessu máli svo það sé faglegt. Það er engin sérstök spurning í þessu, þetta eru bara andsvör til að leggja inn í umræðuna og dýpka hana. En aftur: Eru þetta góðir stjórnarhættir? Mér finnst það ekki.