150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:23]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Satt best að segja hefði ég þá ósk að hér færi fram meiri almenn umræða um lagasetningu, hver markmiðin eru, hvaða lágmarkskröfur eru til umræðu og að það yrðu þá lágmarkskröfurnar sem réðu úrslitum en ekki dagafjöldinn sem eftir væri í þinginu. Ég er hjartanlega sammála því sem hv. þingmaður rekur um samráð. Ég sit ekki í þessari nefnd og þekki ekki til hennar, en auðvitað er sérstakt að sjá umsagnaraðila lýsa því að þeir telji að það sé ekki rétt að tekið hafi verið tillit til tillagna þeirra. Það er alls ekki sjálfsagt að tekið sé tillit til tillagna en sé það ekki gert á heldur ekki að halda því fram að svo hafi verið. Ég ítreka að meðferð þessa máls þekki ég ekki. En ég myndi vilja sjá frekara samtal hér innan húss um það hverjar kröfurnar ættu að vera og hver lágmarksviðmiðin ættu að vera í þessum efnum. Ég held að það séu ótrúlega mikil verðmæti, ég held það megi beinlínis nota það orð, sem fara forgörðum ef við nýtum það ekki til fulls að við erum að kalla eftir umsögnum hingað. Þær berast hingað og síðan er ekki mikið gert með þær. Auðvitað er það þannig að þær stangast stundum á og menn og félög eru oft að spegla hagsmuni en í öðrum tilvikum er einfaldlega verið að benda á eitthvað sem betur mætti fara eða eitthvað sem stenst ekki lagalega skoðun.