150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að rifja upp svolítið sem þetta mál er ekki. Það vill svo til að þetta mál fjallar um Orkusjóð. Lagaleg umgjörð Orkusjóðs hefur verið hluti af lögum um Orkustofnun. Nú vill svo skemmtilega til að nýlega var þeim lögum breytt með lögum nr. 112/2019, sem tóku gildi 19. september 2019, nema a- og b-liður 6. gr. sem tóku gildi í upphafi þessa árs. Lögin voru sett á sínum tíma af okkur hér og voru hluti af fyrirbæri sem er kallað þriðji orkupakkinn. Þriðji orkupakkinn var mál sem var rætt hér mjög lengi af Miðflokknum af ótta við að verið væri að brjóta í bága við stjórnarskrá, gera einhverjar breytingar á því hvernig farið væri með auðlindir og að Orkustofnun myndi þá lúta valdi Evrópu.

Mér finnst áhugavert að það skorti algerlega umræðu frá Miðflokknum eða nokkrum öðrum um að hér sé á ferð eitthvert mál sem gefur upp á bátinn sjálfstæði Íslands eða sjálfstæði Orkustofnunar eða eitthvað slíkt. Ástæðan er mjög einföld: Þetta mál gerir það ekki neitt. Hins vegar hefur það verið hluti af lagaumhverfinu sem rifist var um hér að myndi einhvern veginn koma sjálfstæði Íslendinga í orkumálum algerlega fyrir kattarnef.

Ég nefni þetta vegna þess að ef þriðji orkupakkinn hefði haft þessi áhrif, með þeim breytingum sem ég rakti hér, með lögum nr. 112/2019, ef lögin hefðu valdið því að Orkustofnun væri ekki lengur sjálfstæð stofnun heldur undirstofnun Evrópu eða eitthvað slíkt, væri þetta mál ekki hér. Þá væri þetta mál ekki eins og það er. Ef svo væri værum við ekki að setja nýja löggjöf um Orkusjóð út frá lögum um Orkustofnun.

Mér finnst bara rétt að minnast aðeins á þetta vegna þess að rangfærslurnar í kringum orkumál á Íslandi almennt, frá þriðja orkupakkanum og umræðunni um hann, eru skaðlegar. Þær eru skaðlegar fyrir umræðuna. Það er skaðlegt að fólki sé talin trú um að verið sé að ræna það einhverjum auðlindum eða yfirráðum yfir auðlindum sínum eða orkumálum almennt, þegar svo er ekki. Mér þætti ofboðslega gaman að heyra hér ræðu — og ég meina það, mér þætti það gaman ef ekki beinlínis fyndið — frá hv. þingmönnum Miðflokksins, hverjum þeirra sem væri, um það með hvaða hætti þetta mál muni koma Orkusjóði undir yfirráð Evrópu. Það væri gaman að sjá viðkomandi hv. þingmann reyna það. Reyndar hefur sú list sjaldan brugðist hér að búa til einhverjar skrýtnar myndir af staðreyndunum. En ég hefði gaman af því að sjá hvernig það færi.

Þegar við tölum um orkumál á Íslandi almennt er oft stutt í heitar tilfinningar, eðlilega. Orkan er ein af auðlindum okkar sem við munum þurfa meira á að halda í náinni framtíð en nokkru sinni fyrr, eðlilega, kannski eftir því sem samfélagið þróast, en líka vegna þess að við höfum möguleika á því að nýta þá orku sem við höfum nóg af til að veita okkur þokkalegt forskot í orkumálum miðað við aðrar þjóðir og hugsanlega líka, dirfist ég að segja, með því að leggja einn daginn sæstreng sem gerir okkur kleift að selja rafmagn úr landi. Ég er ekki að leggja það til hér og nú. Síðast þegar ég vissi var það ekki góð hugmynd. Ég myndi ekki styðja það í dag vegna þess að síðast þegar ég vissi var það ekki góð hugmynd. En einn daginn gæti það orðið góð hugmynd. Við þurfum að sjá hver þróun raforkumála verður hér sem og annars staðar og auðvitað þróun loftslagsbreytinga og þess háttar.

Vel á minnst, virðulegi forseti. Ef til kæmi að leggja hér sæstreng eða að farið yrði í einhver slík verkefni hlyti það að varða lög um Orkusjóð. Það hlyti á einhvern hátt að varða þessa stofnun. Hún hlyti að taka þátt í því með einhverjum hætti, geri ég ráð fyrir. Samt er alger þögn frá Miðflokknum um þetta mál. Af hverju? Jú, það er vegna þess að það kemur málinu ekki við. Ég veit að það er kannski óvenjulegt að nefna það mál í samhengi við annað mál (Forseti hringir.) vegna þess að það kemur því máli ekki við, en miðað við málþófið hér síðast fannst mér rétt að undirstrika nákvæmlega þá staðreynd.