150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir stingur upp á djúpri umræðu um málefni í stærra samhengi líst mér vel á, og almennt þegar kemur að þingmönnum nokkurra flokka hér á Alþingi. Ég verð líka að segja að þegar ég hef heyrt fólk stinga upp á því að hlutirnir séu skoðaðir í víðara samhengi þegar kemur að málefnum þriðja orkupakkans er reynsla mín sú að þeir eru skoðaðir án nokkurs samhengis. Það er mjög erfitt að fara út í einhverja nákvæma sálma en ef ég spyr einhvern sem hefur gríðarlegar áhyggjur af þriðja eða fjórða orkupakkanum nákvæmlega hvað valdi áhyggjunum er sjaldnast farið í einhverjar tilteknar greinar einhverra þurra lagaskjala frá Evrópu þegar ég er reyndar að spyrja nákvæmlega um það. Miklu frekar er farið út í eitthvað eins og hvernig heimsmálin séu að þróast almennt eða hvernig orkumál við viljum almennt hafa. Ég hygg nefnilega að enginn raunverulegur ágreiningur sé á meðal Íslendinga um það hvernig við viljum haga orkumálum okkar í stóra samhenginu. Við viljum hafa yfirráð yfir auðlindum okkar. Meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn er, alla vega á góðum dögum þegar er gott veður, hlynntur ákvæði í stjórnarskrá sem tryggir þjóðareign á auðlindum. Svo vandast auðvitað málið þegar við förum út í útfærslu á hlutum eins og gjaldtöku vegna algerlega blygðunarlausrar sérhagsmunagæslu þess flokks fyrir eigendur kvótans. Það er önnur saga.

En ég tæki fagnandi dýpri umræðu með hv. þingmanni eða fólki sem er líka þess megnugt að skoða staðreyndirnar og smáatriðin. Ég hef stundum áhyggjur af því þegar fólkið sem er alveg sama um smáatriðin og þurru leiðinlegu lagaskjölin (Forseti hringir.) vill tala um hlutina í stærra samhengi. Þá er mín reynsla (Forseti hringir.) að oft vill það einmitt ekki tala um málið yfir höfuð.