150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé vel athugað hjá hv. þingmanni. Það væri þess virði að taka til umræðu þau málefni sem fólk vill leiða umræðuna að, eða öllu heldur það sem skiptir raunverulega máli í því sem fólk hefur áhyggjur af. Það er rétt, þriðji orkupakkinn var ekki stórt mál. Hann var ekki stórt mál, mjög lítið frumvarp, átta blaðsíður minnir mig, þar af tvær efnislegar í lagatexta. Ég gerði svolítið grín að því í atkvæðagreiðslu um málið á sínum tíma. Ég fór í atkvæðaskýringar til að lýsa því yfir að það væru ekki landráð að Orkustofnun væri gerð sjálfstæðari eða eitthvað því um líkt, sælla minninga.

Ef við tækjum umræðuna um það hvernig við viljum haga þessum málaflokki í víðara samhengi hygg ég að nokkrar spurningar blasi við sem við ræðum kannski ekki nóg, samanber það sem hv. þingmaður sagði, t.d. hvernig við ætlum að nýta auðlindirnar. Við búum núna við svokallaða rammaáætlun sem miðast við hvaða náttúru við viljum vernda, aðallega upp á sjónmengun eða að við glötum einhverjum náttúruperlum við raforkuframleiðslu, iðnað og þess háttar, við að virkja og nýta þá auðlind sem við höfum til að framleiða raforku. Ég hygg að þau viðmið séu svolítið frábrugðin í dag og ég held að það sé alveg tími til kominn að taka svolítið hreinskilna umræðu um það á hvaða forsendum við viljum reisa þá rammaáætlun. Ég vona að það þyki ekki of róttæk skoðun.

Önnur spurning er: Hvernig metum við hagsmuni borgaranna með tilliti til raforkuverðs annars vegar og þjóðartekna hins vegar? Auðvitað er ég þá að tala um sæstreng. Það er umræða sem við áttum fyrir nokkrum árum. Einhvern tíma kemur hún aftur, þegar aðstæður hafa breyst og við þurfum að meta það aftur. Þá þurfum við að geta tekið það samtal vegna þess að auðvelt er að setja sig bara öðrum megin og ætla að standa þar, vera stjórnmálamaðurinn sem vill lækka raforkuverð alveg sama hvað og lætur eins og lágt raforkuverð sé helstu mannréttindi á Íslandi. (Forseti hringir.) Auðvitað er það bara einn hluti annars mengis (Forseti hringir.) sem þarf að ræða líka.

Ég vildi óska þess að við værum hér við 2. umr. og gætum haldið þessu áfram, virðulegi forseti. En ég þakka hv. þingmanni ábendinguna.