150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að halda áfram umræðunni um þriðja orkupakkann til að sýna einmitt fram á að ekkert af dómsdagsspánum hefur ræst, verðið er ekki orðið það sama og í Evrópu og sama hvað fólk segir myndi sæstrengur — sem er ekki enn kominn en átti bara að birtast um leið og var búið að samþykkja lögin — ekki breyta verðinu hérna innan lands.

En þá að máli dagsins. Mig langar að fjalla hérna í seinni ræðunni um 5. gr., sem varðar eftirlit. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þeir sem hljóta styrk eða lán frá Orkusjóði skulu gera grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjár samkvæmt nánari reglum stjórnar Orkusjóðs.

Ríkisendurskoðun annast árlega endurskoðun reikninga Orkusjóðs.“

Það er gott og blessað að gera einmitt grein fyrir framvindu verkefna o.s.frv. og allt eðlilegt hvað það varðar. Ég sakna pínulítið hins vegar greininganna sem koma eftir að verkefnum lýkur til að meta áhrifin af þeim verkefnum sem voru styrkt. Það er t.d. gert í Tækniþróunarsjóði, þar sem árangur er metinn af útdeilingu til mismunandi verkefna. Það er mjög mikilvægt til þess einmitt að læra betur á það hvaða verkefni eru góð og hver ekki. Það má vel vera að þetta verði nánar útlistað í reglugerð eða nánari fyrirmælum ráðherra, en mér finnst þetta vera augljós hluti af því sem þyrfti að vera þannig að það eru alla vega svona ábendingar héðan úr umræðunni ef fara á í lögskýringargögnin og eitthvað svoleiðis, að þetta væri eðlilegur hluti af eftirfylgniþættinum.

Annað sem ég sakna í frumvarpinu, þá sérstaklega varðandi hlutverkið, er að fjallað sé um sjálfbærnihugtakið, því að þó að orkustefna, nýsköpunarstefna, byggðastefna og stefna stjórnvalda í loftslagsmálum séu allt pólitísk mál sem koma hingað inn á þingið og er fjallað um á pólitískan hátt og grundvöllur þessara stefnumiða eigi sér rætur í ákveðinni sjálfbærni, þá þarf yfirleitt að orða hlutina nokkuð beint, hvert hlutverk sjóðsins sé, og nefna það mjög skýrum orðum að ákveðið grunngildi, svipað og í lögum um opinber fjármál, sé einmitt sjálfbærni því að ef það er eitthvað sem við höfum lært á undanförnum mánuðum þá er það að sjálfbærnin er mikilvægasta hugtakið sem við þurfum að hafa í allri okkar vinnu hérna á þingi. Það er ekki stöðugleiki heldur sjálfbærni. Stöðugleiki kemur ef við erum sjálfbær, ekki öfugt. Það er mjög mikilvægt.

Mig langar síðan aðeins að halda áfram með umræðuna sem ég átti hérna í andsvörum fyrr í dag um mat á áhrifum þessa frumvarps, fjárhagslegum áhrifum á ríkissjóð. Í umræðunni kom fram, og er áhugavert, að yfirleitt er verið að meta áhrif á ríkissjóð ef þau eru neikvæð, samkvæmt minni reynslu alla vega, ég man ekki eftir neinni umfjöllun um jákvæð áhrif á hann, en hérna er verið að fjalla um nýsköpunarverkefni sem almennt séð hafa jákvæð áhrif. Ég vildi bara nefna að jákvæðu áhrifin, sem og svo sem þau neikvæðu, eru ekkert endilega fjárhagslegar upphæðir. Í lögum um opinber fjármál þar sem er kveðið á um hvar stefna stjórnvalda skuli vera lögð fram, sem er í fjármálaáætlun, er ekki endilega fjallað um einungis fjárhagsleg áhrif heldur ábata í rauninni með kannski stóru Á-i. Þar sem núna hefur verið fjallað um ákveðið velsældarhagkerfi, þá eru markmiðin þar ekki endilega fjárhagsleg heldur samfélagsleg og ef slíku mati á áhrifum væri betur sinnt í frumvarpagerð og því sem stjórnvöld leggja til þingsins þá held ég að þingið væri mun (Forseti hringir.) betur sett til þess að fjalla um þau (Forseti hringir.) á málefnalegan hátt.