150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Einfalda svarið er já, að sjálfsögðu. Flókna svarið myndi ég vilja hafa með af því að núna er þessi sjóður samkvæmt verklagsreglum samkeppnissjóður. Hann er það hins vegar ekki samkvæmt þessu frumvarpi, ekki augljóslega, sem er áhugaverð breyting á hlutverki sjóðsins. Hitt er síðan að þessi tiltölulega litli sjóður hvað varðar upphæðir, eins og hv. þingmaður lýsir, á að vinna og styðja við verkefni á grundvelli orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og stefnu í loftslagsmálum. Þetta eru fjórir af stærstu málaflokkunum sem við glímum við hérna á þinginu. Það eina sem vantar eru kannski samgöngumál, heilbrigðismál og menntamál og náttúrlega almannatryggingakerfið líka. En þetta eru með stærstu flokkum stefnanna sem við vinnum með. Þessi sjóður á að styðja verkefni sem ná markmiðum þessara stefna sem við setjum á þinginu, það eru þessi risastóru byggðamál og nýsköpunarmál sem eru gríðarlega mikilvæg framtíðarmál. Þá er einmitt mjög merkilegt það sem þingmaðurinn talaði um, að það er svo augljóst að kröfur um gagnsæi eiga við, sem ætti að vera tryggt ef þetta væri samkeppnissjóður, og annað á þeim nótum.