150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:50]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Í síðara andsvari langar mig að koma inn á aðeins aðra hluti þó að vissulega hafi svar hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar vakið ýmsar vangaveltur. En ég ætla samt sem áður að leyfa mér að fara á aðeins aðrar slóðir. Í ræðu sinni áðan fjallaði hv. þingmaður um sjálfbærnihugtakið sem er náttúrlega mjög þýðingarmikið hugtak, sérstaklega á þessum tímum. Það snýr að umhverfi, efnahag og samfélagi. Þetta eru þeir þrír þættir sem skipta gríðarlega miklu máli. Hv. þingmaður ræddi það svolítið í samhengi við mat á áhrifum lagasetningar. Við höfum rætt það hér áður og ræddum það svolítið áðan að það er áskilið með efnahagslegu áhrifin, þau eru jákvæð, en aðallega neikvæð, en eins og hv. þingmaður nefndi þá er líka áhugavert að ræða matið út frá jákvæðu áhrifunum. En ég velti fyrir mér í því samhengi, ég nefndi byggðamálin áðan, hvort við ættum kannski að meta öll frumvörp út frá sjálfbærni, þ.e. umhverfi, efnahag og samfélagi, og meta þau áhrif í hvert skipti sem frumvarp er lagt fram og snerta þannig, held ég, á öllum þeim þáttum sem skipta máli og öllum þeim þáttum sem þingmenn og þingheimur á að hafa í huga þegar verið er að meta frumvörp.