150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það lítur út fyrir að vera augljóst hversu mikilvæg sjálfbærni er, sérstaklega núna eftir Covid eins og það hefur birst okkur. Við eigum að byrja á öllu sem við gerum út frá sjálfbærnihugsun. En það hefur verið þannig hugmyndafræði undanfarin ár og örugglega áratugi að stöðugleikahugtakið hefur ráðið ferð. Ef við horfum aðeins yfir söguna og skoðum gögn um vísitölu, gengisþróun og ég veit ekki hvað og hvað, þá er stöðugleiki, held ég, það síðasta sem væri hægt að segja að lýsti þeim sögulegu gögnum. En á sama tíma og það hefur ríkt gríðarlegur óstöðugleiki þá höfum við náð árangri í sjálfbærni. Tilgáta mín er í rauninni sú að ef við leggjum meiri áherslu á sjálfbærni og pössum upp á að þar verði ekki nein brotalöm, þegar eitthvað eins og hrunið eða Covid eða eitthvað því um líkt gerist, þá skipti stöðugleikinn síður máli. Við höfum haldið ákveðinni sjálfbærni þrátt fyrir óstöðugleikann. Þannig að svo lengi sem við pössum upp á að sjálfbærnin sé til staðar, sjálfbærni hvers einstaklings varðandi það að hafa þak yfir höfuðið og mat í magann o.s.frv. og þeim grundvallarþörfum sé sinnt, þá skiptir óstöðugt umhverfi ekki máli. Af þeirri ástæðu er tiltölulega augljóst að sjálfbærni á að vera fyrsta mælistika okkar í öllum þeim stefnum og áherslum sem við setjum.