150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er mjög góð spurning hjá hv. þingmanni. Í 8. gr. í reglugerðarheimildinni virðist verið að taka saman allar þær afgangsgreinar sem eru settar á nákvæmari hátt í verklagsreglum núverandi Orkusjóðs og reynt að setja þetta saman. Eins og hv. þingmaður orðaði það í fyrra andsvari þá er þetta einföldun á núverandi fyrirkomulagi en það er líka verið að auka hlutverkið alveg gríðarlega og setja inn gríðarlega umfangsmikla málaflokka. Það er verið að einfalda það hvernig farið er með stjórnina og aðkomu ráðherra o.s.frv. Þá er spurningin kannski: Jú, ég held að einföldunin sé að mestu leyti mjög fín, en er þetta kannski aðeins of mikil einföldun miðað við aukið hlutverk sjóðsins og einmitt það hversu gríðarlega einföld aðkoma ráðherra er? Aðkoma ráðherra býður upp á þessa spillingarhættu sem við höfum bent á og að sjálfsögðu er það enginn áfellisdómur eða tilætlunarsemi gagnvart núverandi ráðherra eða jafnvel þeim næsta, en það er þessi freistnivandi sem við höfum talað um í þessu gríðarlega stóra umhverfi, að pólitískar ákvarðanir og ástæður eru oft fremur sérútvaldar en faglegar.

Það er pólitísk aðkoma í þessu frumvarpi í gegnum það að Alþingi er að samþykkja allar þessar stóru stefnur. Í staðinn fyrir að pólitíkin sé að skipta sér af einstaka verkefnum og segja að þetta einstaka verkefni fái stuðning o.s.frv., þá er pólitíska aðkoman á breiðu nótunum, í málverkinu, í stóru myndinni. Faglegar forsendur eiga einmitt að vera í einstaka verkefnum og útskýra á það á faglegan hátt hvernig er betra og ábatasamara að veita þessu verkefni stuðning frekar en hinu. Pólitíska útskýringin nær því aldrei nógu vel.