150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

436. mál
[23:02]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þetta er að mörgu leyti býsna stórt mál, þó að það sé kannski ekki af þeirri stærðargráðu sem Orkusjóðurinn er, eins og hefur sýnt sig vera hér í dag, en við verðum kannski fram undir morgun að ræða þetta miðað við stærðarmörkin á því, en allt í góðu, ég er til í það.

Eins og hv. þingmenn vita lagði hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fram frumvarp um breytingu á þessum lögum. Það var ja, hvað getum við sagt, býsna veigamikið að einhverju leyti. Þar greindi fyrir um verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga þar sem fylgdi með listi þar sem voru miklar tilfærslur um hvað væri hvorum megin, þ.e. heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna megin eða ríkisins megin, allt eftir því hvað er í viðauka III eða viðauka IV, eins spennandi og það er nú. Og svo í ljósi þess hvaða starfsemi væri þess eðlis að ekki lengur þyrfti starfsleyfi útgefið frá heilbrigðisnefndum sveitarfélaganna.

Hv. umhverfis- og heilbrigðisnefnd fjallaði býsna vel um málið og kom berlega í ljós að umtalsverðar athugasemdir ansi margra voru um akkúrat þær tillögur sem lagðar voru fram í umræddu frumvarpi. Þá brugðum við á það ráð að reyna að vinna þetta aðeins betur í fínni samstöðu í nefndinni og skoða hvort hægt væri að ná einhverjum breytingum sem lagðar voru til í frumvarpinu þó að ekki yrði gengið alveg eins langt og þar var kveðið um. Ég ætla ekki, forseti, að lesa nefndarálitið. Hv. þingmenn hafa kynnt sér það. Kannski ég lesi hér kaflann Almennt, af því að þar er komið nokkuð vel inn á skoðun nefndarinnar. Hér er verið að fjalla um að fækka flokkum starfsemi sem háð er útgáfu starfsleyfa eða er skráningarskyld og verkaskiptingu á milli, eins og ég sagði í upphafi. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Við meðferð málsins komu fram umfangsmiklar athugasemdir við efni frumvarpsins og ljóst er að ekki ríkir einhugur um þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu. Fram komu sjónarmið þess efnis að fækkun flokka ætti frekar að vera áfangaskipt og lögð var áhersla á að lögin þörfnuðust heildarendurskoðunar til skýringar og einföldunar. Nefndin tekur undir framangreind sjónarmið og telur nauðsynlegt að fram fari heildarendurskoðun á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, enda sé lagaumhverfið flókið og torskilið. Slík heildarendurskoðun þurfi að fara fram í víðtæku samráði við hlutaðeigandi aðila, þ.e. heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, sveitarfélögin sjálf, Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og atvinnulífið. Auk þess skuli við þá vinnu hafa samráð við önnur ráðuneyti eða stofnanir, sérstaklega í þeim tilvikum þegar starfsemi er háð eftirliti fleiri aðila eða þar sem sækja þarf um fleiri en eitt starfsleyfi fyrir sömu starfsemina, og tryggja aðkomu eftirlitsaðila þar sem við á þegar ekki er talin þörf á sérstöku starfsleyfi. Nefndin telur að best fari á því að eftirlit fari fram sem næst starfsemi hverju sinni en hlutverk stofnana ríkisins sé að huga að samræmingu og veita aðstoð þegar með þarf. Þar verði hugað að því hvernig þekking í nærumhverfi nýtist sem best, samskipti við stjórnvöld og upplýsingagjöf sé sem aðgengilegust og atvinnustarfsemi búi við sambærilegar aðstæður óháð staðsetningu um landið. Þá telur nefndin að við endurskoðunina eigi að stefna að því að auka veg rafrænnar stjórnsýslu sem mest.“

Forseti. Síðan er farið yfir þær breytingar sem nefndin telur að eigi að gera, en í stuttu máli sagt snýr afgreiðslan sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd leggur til að því að skýra mjög gróflega, eins vel og hægt er, á milli þessara stofnana og stjórnsýslustiga með viðauka III og VI. Það eru að mig minnir einir sjö flokkar starfsemi sem ekki fá lengur starfsleyfi heldur flokkast á öðrum stað, en svo er hvatt til heildarendurskoðunar á málaflokknum og að þar verði farið betur yfir þetta. Textinn sem ég las upp áðan er þá nokkurs konar kompás nefndarinnar um það hvert eigi að stefna í þeirri heildarendurskoðun.

Nokkuð var rætt um hvort ætti að vera inni í þessu líka flokkurinn „önnur sambærileg starfsemi“, þ.e. að heilbrigðisnefndirnar gætu enn flokkað hvar þyrfti starfsleyfi ef það væri sambærilegt annarri starfsemi. Nefndin taldi að það yrði að vera inni því að ekki væri hægt að búa til tæmandi lista yfir þá starfsemi sem uppi væri eða kæmi upp hverju sinni og að sjálfsögðu er þetta eitt af þeim atriðum sem farið verður yfir í heildarendurskoðun. Vegna þessa eru lagðar fram umtalsverðar breytingartillögur sem finna má í nefndarálitinu.

Undir nefndarálitið skrifaði framsögumaður, sá sem hér stendur, Bergþór Ólason formaður, með fyrirvara, Ari Trausti Guðmundsson, Guðjón Brjánsson, með fyrirvara, Hanna Katrín Friðriksson, með fyrirvara, Jón Gunnarsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Já, það gleymdist mögulega að skrifa hér, ég er að uppgötva það núna, hæstv. forseti, og mér þykir það mjög leitt, ég hefði viljað vita af því og hefði verið minnsta mál að prenta það, og er kannski hægt enn, en ég held ég fari rétt með, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson getur kannski gert grein fyrir því sjálfur, að hann studdi málið eða lýsti sig samþykkan, held ég að orðalagið sé, sem áheyrnarfulltrúi í nefndinni.

Nefndin leggur sem sagt til, forseti, áður en ég yfirgef hann alveg, ég veit að hann kvíðir þeirri stundu, að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gert er grein fyrir í nefndarálitinu.