150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

436. mál
[23:11]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið því að hann minnti mig þá akkúrat á það sem ég hafði gleymt að gera í framsöguræðu minni, að þakka hv. nefnd fyrir góða vinnu í málinu. Ég myndi kannski ekki nota alveg sömu orð og hv. þingmaður notaði til að lýsa frumvarpinu, gæðum þess, efni og hvernig við unnum það. En í grundvallaratriðum erum við hv. þingmaður sammála um að það þurfti að gera ýmislegt til að sú samstaða næðist innan nefndarinnar sem náðist, þannig að við öll vorum sammála um að fara í þessa afgreiðslu. Við prófuðum leiðir, hv. nefndarmenn voru mjög liðlegir mér sem framsögumanni í því að leyfa mér að prófa að fara með það í þessa eða hina áttina og kanna, með því jafnvel að bera það undir umsagnaraðila, hvort þetta virkaði og jafnvel að kalla það inn aftur. Þannig að ég verð að taka undir með hv. þingmanni að þessi vinna var til fyrirmyndar.