150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

436. mál
[23:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði nú bara að láta hitt duga svo sem, en hv. þingmaður minntist einmitt á — og þarf að minnast á — umsagnaraðilana sem komu að og voru rosalega hjálplegir. Þar fóru fremstir í flokki ungir umhverfissinnar sem voru með gríðarlega nákvæmar og góðar umsagnir um þetta mál og útskýrðu mjög vel af hverju það væri þetta sem væri að. Það var mjög vel gert og mjög vel komið til móts við það að kalla eftir viðbótarumsögnum af því að það urðu svo miklar breytingar á málinu frá fyrstu útgáfu yfir í aðra útgáfu, kallað var á viðbótarumsagnir um það, og síðan varð alla vega þriðja útgáfa og nokkrir snúningar á því hvað átti að vera inni og hvað ekki, eins og farið var yfir í framsöguræðunni.