150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[11:12]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Þetta mál snýst um það að veikum samgönguráðherra tekst ekki að fá nógu mikið fjármagn inn í samgönguáætlun til að fjármagna innviðauppbyggingu í vegagerð, sem var m.a. loforð þessarar ríkisstjórnar. Innviðauppbygging, innviðauppbygging, innviðauppbygging — þetta voru loforðin fyrir síðustu kosningar. Þetta er eitt af því sem brennur helst á landsmönnum núna, þetta er að rjúka hæst upp í forgangsröðun landsmanna, alla vega á síðasta ári, hvað varðar ríkisfjármálin. Veikur samgönguráðherra kemst ekki með þetta inn og ákveður þar af leiðandi að taka út úr samgönguáætlun ákveðin verkefni sem, ef samgönguáætlun er samþykkt, eru föst fyrir utan sviga. Veit hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson það, veit hann að þrjú af þessum sex verkefnum eru í hans eigin kjördæmi? Veit hann að tvö af þeim þremur sem verið er að fara af stað með strax eru í hans kjördæmi? Veit hann hvað kjósendur í hans kjördæmi vilja? Hann hlustar bara á sveitarstjórnirnar, og hverra sveitarstjórnir eru það? Er það kannski sveitarstjórn Sjálfstæðisflokksins sem situr þarna við völd og vill fá einkaframkvæmdir? Sveitarstjórn sem hefur kallað eftir einkaframkvæmdum mjög lengi, kallað eftir því að það sé fjármagnað af einkafé á sama tíma og Félag íslenskra bifreiðaeigenda segir í þessu samhengi í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Í þessari samantekt kemur fram að þátttaka einkafjárfesta leiði til 33% hærri kostnaðar við fimm fyrirhuguð samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir heldur en ef ríkissjóður fjármagnar vegagerðina. Vegfarendur munu þurfa að greiða 20 milljörðum kr. meira samkvæmt útreikningum FÍB.“

Því var lofað í stjórnarsáttmálanum að nota tekjur ríkisins af eignum sínum, arð úr bönkum o.s.frv., í vegaframkvæmdir, í innviðauppbyggingu í samgöngum. Nei, það á ekki að fara þá leiðina, það á að taka þessi verkefni út. Er hv. þingmaður búinn að segja kjósendum sínum af verkefnum sem verða tekin út fyrir sviga, að þeir muni þurfa að borga meira fyrir þau og ef þeir mótmæla, (Forseti hringir.) eftir að búið verður að samþykkja samgönguáætlun í þinginu, erum við föst í því að fara þá leið sem ráðherra var að leggja til?