150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[11:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, auðvitað veit ég ekki hvar þessar framkvæmdir liggja, ég hef ekki hugmynd um að þær eru í Suðurkjördæmi, hv. þingmaður. En sveitarstjórnir kalla eftir þessum framkvæmdum um allt land, ekki bara í Suðurkjördæmi og ég tel nú allt í lagi að hlusta á þær. Að þær séu undir forystu Sjálfstæðisflokks, ég veit ekki hvað hv. þingmaður á við, hvort hann hafi farið yfir allar sveitarstjórnir sem þarna eru taldar eiga einhvern hlut að máli og skoðað hvernig þær eru samsettar.

Fjármögnun er tilraun til að flýta framkvæmdum. Það er verið að fjármagna fullt af öðrum vegaframkvæmdum með beinum hætti. Þarna er einfaldlega verið að reyna Hvalfjarðarmódelið, vissulega með ákveðnu tilbrigði sem felst í meiri þátttöku ríkisins en þar var. Þetta er heimild til Vegagerðarinnar til að athuga með samninga. Það eru sett belti og axlabönd, skulum við segja, (Forseti hringir.) til að fara þessa leið. Ef þetta tekst ekki þá verður samt sem áður hægt að ljúka þessum framkvæmdum með öðrum hætti.