150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[11:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður verður þá kannski að segja kjósendum sínum í Suðurkjördæmi það, að ef þessi leið verður farin, og samgönguáætlun verður samþykkt, verður hún ekki endurskoðuð fyrr en eftir mörg ár. (Gripið fram í: Þrjú ár.) Þá eru verkefnin tekin út úr samgönguáætlun sem annars væru í samgönguáætlun núna og eina leiðin í þessi þrjú ár verður, hver? Að fara þá leið sem samgönguráðherra leggur til, að fara þá leið sem kostar fólk sem þarf að nota þessa vegi miklu meira, samkvæmt útreikningum frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, 33% meira. Auðvitað verður arðsemiskrafa hjá fyrirtækjum, og það kemur fram. Hvað kostar það ef ríkið tekur lán? 1% í dag. Að sjálfsögðu verður þetta miklu dýrara fyrir vegfarendur þó að hægt verði að fara einhverja aðra leið. En hvernig verður viðhaldið á þeim vegum? Hvar lenda þeir í samgönguáætlun? Þeir lenda aftast út af því að önnur leið er fær. En þú þarft að borga. Þetta er eitthvað sem hv. þingmaður þarf að gera kjósendum sínum í Suðurkjördæmi alveg ljóst, að ef þessi leið er samþykkt og svo kemur á daginn að þetta er ekki nógu hagkvæmt og eitthvað svona, (Forseti hringir.) þessi skilyrði sem þingmaður er að nefna, þá þarf fólk að bíða í þrjú ár eða sætta sig við að þurfa að borga miklu meira.