150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[11:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka andsvarið. Hægt er að svara þessu á margan hátt. Ég vil t.d. benda á að ég fór í tiltölulega löngu máli yfir það af hverju hærra verð gæti verið réttlætanlegt. Menn festa sig hér við þessi 20–30% sem er evrópsk reynsla. Ég fór líka yfir það að þessi tilteknu verkefni gætu einmitt hentað til að þreifa sig áfram með verkefni af þessu tagi vegna þess að það er ekkert gefið að evrópsku tölurnar eigi hér við skilyrðislaust. Vegagerðin heldur utan um samningana. Forgangsröðunin er auðvitað mjög skýr og það er alveg ljóst að þeir peningar sem eru til reiðu í vegabætur á landinu eru þó ekki meiri en svo að ef við ætlum í raun og veru að flýta framkvæmdum verðum við að leita þessara fjármögnunarleiða og ef við tækjum þær sem ríkisframkvæmdir yrðum við bara að fresta einhverjum öðrum.