150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[12:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar athugasemdir, sem ég held að séu; þetta var ekki bein spurning. Um þetta er það að segja, ég get endurtekið það sem ég sagði í ræðu minni og ég vakti athygli á því áðan, að hér eru þrjú stjórnarmál sem fjalla um eða gefa í skyn að fyrirhugað sé að fara í innheimtu veggjalda. En það er athyglisvert og rétt, og ég tek undir það með hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni og þakka honum fyrir þessar athugasemdir, að þetta er ekkert í umræðunni núna. Þessi veggjöld virðast ekkert vera í umræðunni þrátt fyrir að hér liggi ein þrjú stjórnarþingmál þar sem gert er ráð fyrir veggjöldum.

Varðandi rökstuðninginn þá er hann einnig brotakenndur, ég tek undir það sem ég held að hv. þingmaður hafi verið að fara. Hér í Reykjavík er greinilega verið að tefja umferð og beina umferð eitthvert annað, þ.e. að menn eigi að nota almenningsvagna frekar en að aka einkabílunum. Hugmyndir á bak við veggjöldin hér hafa kannski annan tilgang, virðist vera.

Varðandi jarðgöngin þá virðist tilgangurinn vera sá að flýta fyrir jarðgangagerð, eðlilega. Það er spurning um öryggi. Það er spurning um að stytta leiðir. Varðandi þetta verkefni þá er verið að reyna að flýta framkvæmdum og þar er ég kannski sammála Pírötum með það að e.t.v. er ódýrara nú um stundir að ríkið fjármagni þetta og taki lán vegna þess að þau eru ódýr í staðinn fyrir að veita einkaaðilum skotleyfi á það að rukka almenning.