150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[12:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Tvö atriði: Andsvör og Stafangur. Þetta er pínu um fundarstjórn án þess að fara í fundarstjórn, spara þann lið. Andsvar er ekkert endilega spurning, það þarf ekkert að spyrja spurninga, maður getur bara komið og gert ákveðnar athugasemdir og umræðu og viðkomandi þingmenn geta svarað því eða komið með einhverjar staðhæfingar á móti o.s.frv. Þetta er búið að vera í umræðunni undanfarið, að ekki sé verið að spyrja neinna spurninga eða því um líkt, og það er bara í fína lagi.

Hitt er varðandi Stafangur. Það var aðili frá Stafangri sem hafði samband við mig og sendi mér gögn um greiðslur í þessar svokölluðu "bommur" eða sjálfvirk veggjaldahlið sem þar eru. Ef upphæðirnar sem fólk greiddi í veggjöld fyrir að fara í og úr vinnu yfir heilt ár eru taldar saman — þetta var tekið saman yfir hvern mánuð og hverja einustu færslu, þetta voru mjög góð gögn frá þeim aðilum sem rukka og hægt að fá þau útprentuð — þá eru þær hærri en viðkomandi greiddi í bensínkostnað fyrir allt árið. Ég ætla aðeins að leyfa þessu að síast inn í vitund fólks. Upphæðirnar sem voru greiddar í veggjöld, fyrir að fara í og úr vinnu, í kringum Stafangur voru hærri en viðkomandi borgaði í bensín fyrir allt árið. Það er þangað sem við viljum fara, er það ekki? Ég segi nei.